145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka svör hæstv. ráðherra. Það er gott að hún hefur skýrt það að ekki er um almenna vopnvæðingu lögreglu að ræða. En jafnvel þótt hún sé afmörkuð þarf að taka afstöðu og velta upp þeirri spurningu hvað fjölgun vopna í lögreglubílum kallar á. Hver verða viðbrögð glæpamanna? Verða þau einhver? Þetta eru allt þættir sem eiga erindi í opinbera umræðu og lögreglan hlýtur að hafa tekið afstöðu til áður en farið var fram á þessa fjölgun geymslustaða.

Ég fagna líka ummælum hæstv. ráðherra um mörk 19. gr. Ég er sammála henni um að þar eru mjög ákveðin mörk. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það að setja vopn að jafnaði í ákveðna bíla reyni mjög á þanþol greinarinnar og jafnvel gangi lengra en hún heimilar. Í öllu falli erum við ráðherra þó sammála um að lengra verði ekki gengið að óbreyttum reglum. Það er mjög mikilvægt að ráðherra segi það skýrt því að það bindur jafnt hendur hennar og eftirmanna hennar á stóli hvað þetta atriði varðar.

Ég vil síðan segja að ég tel ástæðu til að hættumat sem lögreglan gerir að þessu leyti komi fyrir þjóðkjörna fulltrúa. Ég tel að það þurfi að búa þannig um hnútana að allsherjar- og menntamálanefnd geti fengið í trúnaði aðgang að slíku hættumati og upplýsingar um það. Það er ekki í lagi að þjóðkjörnir fulltrúar viti ekki um viðbúnað lögreglu eða hættu sem lögregla telur steðja að samfélaginu. Slíkt er ekki í nokkru lýðræðisríki á vitorði lögreglu einnar og eins (Forseti hringir.) ráðherra. Slíkt er í öllum lýðræðisríkjum líka kynnt fulltrúum annarra stjórnmálaflokka og þannig þarf það að vera.