145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd fær áhættumat ríkislögreglustjóra til kynningar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin sé mjög vel upplýst um það sem þar er að finna. Ég ítreka líka það sem ég hef þegar sagt og áður sagt í umræðu um lögreglumál að það er mjög brýnt að þeim sem gerst til þekkja, til að fjalla um þetta málefni sem er auðvitað ríkislögreglustjóri sem fer yfir grundvöll þess yfir hverju lögreglan þarf að ráða, sé treyst til að leggja það mat fram. Að sjálfsögðu þurfum við öll að hafa skoðanir á því hversu langt skuli ganga í hverju einstaka tilviki. Það er langbest að þeir sem til málsins þekkja sem best hafi það með höndum.

Ég ítreka það sem ég hef sagt að það er klárt mál að það eru ytri mörk á þessum reglum. Það er það góða við að geta rætt reglurnar að menn sjá hvernig þær líta út og hvar mörkin eru. Ríkislögreglustjóri verður að fara að reglunum. Hann getur ekki farið út fyrir þær. Komi til þess að menn séu í vafa um það hvort of langt sé gengið ber ráðuneytinu að sjálfsögðu að grípa inn í það með því að segja að þetta rúmist ekki innan reglna eða leggja til breytingar á reglum. Ef slíkar breytingar yrðu gerðar þyrfti að gera það að mjög yfirveguðu máli.

Svo vil ég að endingu taka undir það sem hér hefur komið fram, málefni löggæslunnar þarf að ræða heildstætt. Við erum alltaf að tala um afmarkaða þætti málsins. Það er alveg ljóst að umræða um vopn er óskaplega viðkvæm á Íslandi. Við erum öll viðkvæm fyrir henni. En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að lögregluliðið þarf að vera vel þjálfað, vel menntað og vel undirbúið í öllum sínum störfum. Að sjálfsögðu skiptir sýnileiki löggæslunnar þar ekki síst máli en þetta þarf allt að koma til. Það þarf bæði að gæta þess að sýnileiki hennar sé sem mestur og við þurfum að gera betur þar og átta okkur á því að vel menntað, vel þjálfað lögreglulið (Forseti hringir.) er það sem við viljum.