145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að biðja hv. þingmann að dvelja aðeins lengur við umræðuna um barnabætur vegna þess að ég hef lengi verið mjög hugsi yfir því hvernig við förum með barnabótakerfið á Íslandi og ekki síst þegar verið er að nota það kerfi, rétt eins og mörg önnur kerfi, til kjarajöfnunar þegar þeim er alls ekki ætlað upprunalega að vera það verkfæri. Má eiginlega segja að kerfið verði svolítið subbulegt ef á mörgum stöðum er verið að tekjutengja alls konar aðkomu hins opinbera. Eftir því sem mér skilst og ég veit best er þessi máti ekki viðhafður á Norðurlöndunum þar sem barnabæturnar eru tengdar börnunum sem slíkum án tengsla við stöðu eða efnahagslega stöðu foreldra og litið er svo á að það sé viðfangsefni almenna skattkerfisins að stilla af kjör með gagnsæjum og réttlátum hætti.

Mér finnst afar mikilvægt að við lyftum þessari umræðu, við sem stöndum fyrir félagslegt réttlæti og jöfnuð á pólitísku litrófi á Íslandi, að horfið verði frá þessari miklu tekjutengingu barnabóta undir því yfirskyni að verið sé að búa til kerfi sem sé í einhverjum skilningi réttlátara, en er þá um leið kerfi sem viðheldur kjaramun og félagslegu misrétti í landinu. Mér finnst þetta vera umræða sem við þurfum að halda betur og oftar á lofti en við höfum gert.

Mig langar að biðja hv. þingmann að ræða þetta hér og þá kannski í samhengi við aðrar tegundir bótakerfa, en ég held að barnabótakerfið sé kannski það sem lýsir best þessum ólíku áherslum og hvað það er í raun og veru sem er kjarninn í hinu norræna velferðarkerfi.