145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er önnur ræða mín um fjáraukalögin í dag og gætu þær átt eftir að verða fleiri. Það má eiginlega heita að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hafi sært mig til að koma hér upp að nýju til að skýra afstöðu mína til rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni. Hún taldi upp stofnanir sem væru ekki á vegum hins opinbera og gaf sér að ég hlyti þá að vera þeim andvígur fyrst ég vildi opinberan rekstur. Stofnanirnar sem hún nefndi voru Hrafnista og Reykjalundur og sennilega einhverjar fleiri.

Ég hef margoft skýrt frá því að ég dreg línurnar við einkavæðingu á allt öðrum stað en hv. þingmaður gerir. Ég geri greinarmun á stofnunum sem eru sprottnar upp úr starfi verkalýðshreyfingar, sjúklinga eins og SÍBS, og eru ekki reknar á nokkurn hátt í hagnaðarskyni. Ég geri greinarmun á þeim og hins vegar klínikinni til dæmis sem núna er starfandi uppi í Ármúla og rekin af fjárfestum sem ætla sér að taka arð út úr starfseminni. Á því er grundvallarmunur. Ég geri líka greinarmun á sjálfstætt starfandi læknum sem reka sinn einkapraxís. Ég hef aldrei verið andvígur slíku. Ég hef aldrei viljað færa landamærin mikið til, hef talið að sá kokteill sem við búum við á Íslandi hafi verið sæmilegur, en núna sýnist mér landamærin vera að færast til. Ef það gerist að þessir sjálfstætt starfandi læknar flytjist inn í stærri rekstrareiningar einkarekins sjúkrahúss þá er komin upp allt önnur staða en áður var.

Ég vildi skýra afstöðu mína til þessara mála. Síðan hef ég verið að kalla eftir umræðu um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Við erum alltaf að sjá öðru hvoru birtast í fjárlögum og í fjáraukalögum núna hvernig kerfisbreytingar eru smám saman að koma í ljós. Þannig kemur fram í þessum fjáraukalögum að gert er ráð fyrir aukaframlagi til einkarekinnar starfsemi. Ég nefni Læknavaktina, þar er farið fram á 46 millj. kr. viðbótarfjárveitingu, í heilsugæslustöðina í Salahverfi sem er rekin á svipuðum forsendum, þar er líka lögð til hækkun í fjáraukalögum upp á rúmar 20 millj. kr. Hvers vegna gerist það? Hver er forsendan fyrir slíku og réttlætingin? Hún er sú að þarna hefur álagið aukist, það koma fleiri sjúklingar til sögunnar og þá fylgir það samningum sem gerðir hafa verið að framlagið skal aukast inn í þessa starfsemi.

Þetta gerist hins vegar ekki í flestum opinberum stofnunum. Ef tekið væri tillit til þess að fjölgun sjúklinga sem sækja til Landspítalans nemur tæpum 2%, 1,7%, þá þyrfti framlag til Landspítalans að aukast bara af þeim sökum um tæpan milljarð kr. Þá vaknar sú spurning aftur sem ég vakti máls á í fyrri ræðu minni, hvort það væri eðlilegt fyrirkomulag að horfa til þess að fjármagn fylgi sjúklingi, eins og Milton Friedman boðaði á sínum tíma að við skyldum hafa að leiðarljósi, bæði í menntakerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Ég segi nei og hef fært rök fyrir því að það sé ekki eðlilegt sem eini vegvísirinn, en að sjálfsögðu þarf að taka tillit til álagsins í heilbrigðiskerfinu, til fjölda þeirra sjúklinga sem leita til heilbrigðisstofnana og til skólanna o.s.frv. þegar gerð er áætlun um fjárframlag til þessarar starfsemi.

Það fyrirkomulag að fjármagn fylgi sjúklingi er ágætt ef við höfum alveg ótakmarkaða peninga, ef við höfum ótakmarkaða peninga kann það að vera í góðu lagi, en við höfum ekki ótakmarkað fjármagn. Við verðum að fara vel með peningana. Það hefur komið fram margoft í athugunum sem gerðar hafa verið meðal annars á vegum OECD að alla vega fram á síðari ár þá nýttist hver króna í íslenska heilbrigðiskerfinu betur en víðast hvar annars staðar. Það var með góðu skipulagi. Ef við hins vegar afnemum allar hömlur sem hafa verið á fjármagninu með þeim hætti sem núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra lýsir að hann vilji gera með þessari hugsun, fjármagn fylgi sjúklingum, þá erum við búin að missa forræðið í hendur þeirra sem fjárfesta. Þá erum við búin að missa forræðið þangað. Ef klínikinni dettur í hug að bjóða upp á einhverja sérstaka þjónustu, nýja þjónustu sem er sjúkratryggingaskyld, þá verða peningarnir að renna þangað. Það er nú bara þannig.

Nú vilja menn helst opna líka á þennan færanleika á milli landa. Við þurfum að gjalda varhuga við því og fara varlega í sakirnar. Ég hefði gaman af því að gerð yrði úttekt á því hvernig íslensk sjúkratryggingastofnun túlkar viðmiðin borið saman til dæmis við það sem gerist í Danmörku. Danirnir voru mjög efins um að fara inn á þessa braut einfaldlega vegna þess að þeir óttuðust að tilvísanakerfi þeirra mundi hrynja, þeir mundu sem sagt glata forræði yfir kerfinu í hendur þeirra sem fjárfesta og ákveða sjálfir upp á hvaða þjónustu þeir bjóða.

Við þekkjum það náttúrlega í menntakerfinu að hér voru reistir háskólar sem höfðu síðan sjálftöku og beinan rétt til að seilast ofan í vasa skattborgarans. (Gripið fram í: Og innheimta skólagjöld.) Og innheimta skólagjöld að auki. Þá er spurningin: Viljum við fara inn á þá braut að veita aðilum á markaði rétt til þess að seilast ofan í vasa skattborgara að vild? Nei. Þetta væri hægt ef við værum Sameinuðu furstadæmin við Arabíuflóann og ættum hér olíu sem kæmi upp úr hverri holu. Þannig er það ekki á Íslandi. Það er ekki þannig. Við höfum takmarkað fé og við þurfum að fara mjög vel með það.

Síðan eru á þessu ýmsar hliðar sem snúa að dreifðum byggðum landsins. Það eru fáir sem mundu vilja róa þar til fiskjar innan heilbrigðiskerfisins, þar er ekki mikil fengsæld og eins hefur reynslan sýnt það, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, að fátækari sveitarfélög eða borgarhlutar hafa ekki farið vel út úr þessu fyrirkomulagi.

Hæstv. forseti. Ég segi: Við þurfum að taka umræðu um þetta. Það þýðir ekkert að koma fram í fréttum sjónvarps eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerði um daginn og nánast hvíslaði undir lok viðtalsins að hann væri núna að hefja vegferð í áttina að þessu fyrirkomulagi, fjármagn fylgir sjúklingi. En ég vil gera mjög skýran greinarmun á því annars vegar að fara alfarið út á þessa braut og hins vegar að tekið sé tillit til þess í fjárlögum hver aukningin er og hver eftirspurnin er á hvaða svæði og hvaða vanda einstaka stofnanir þurfa að glíma við af þeim sökum, eins og t.d. Landspítalinn sem ég vil meina að búi í reynd enn við hálfgert neyðarástand. Ég held að það sé bara veruleikinn. Og þarna er verið að leggja á marga starfsmenn óbærilegar byrðar. Það er það. Það verður að minna okkur á það líka hvernig biðraðir eru að lengjast eftir mikilvægum aðgerðum innan heilbrigðiskerfisins. Það er að verulegu leyti hjá Landspítalanum, en einnig hjá öðrum heilbrigðisstofnunum í landinu.