145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, það er ekki boðlegt. Það er mjög mikilvægt að taka þessa umræðu. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í þá umræðu í langan tíma og ég vísa til greina og ræðna sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur skrifað að undanförnu. Það er mjög mikilvægt að opna þessa umræðu og að við tökum hana í samfélaginu almennt og skoðum samhengi hlutanna. Þegar skorið var niður í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu fylltust biðstofurnar á bráðavaktinni, sem var miklu dýrara úrræði. Þannig þurfum við að skoða þetta allt saman heildstætt og eins þetta kerfi um að fjármagn fylgi sjúklingi. Við þurfum að taka umræðuna áður en við höldum út á þessa braut. Hvað er það nákvæmlega sem við meinum? Hvar er það sem við ætlum að reisa einhverjar skorður? Síðan er ég á því að við eigum að skoða viðmiðin sem til dæmis eru lögð til grundvallar því að heimila flutning milli landa. Eru þau sambærileg hér (Gripið fram í.) og í Danmörku, svo dæmi sé tekið um land sem er að reyna að verja sitt kerfi því að þeir telja tilvísanakerfinu ógnað með þessum flutningum?

Það er mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu. Það á ekki að bjóða Alþingi upp á það að skýrt sé frá því í fjölmiðlum að gera eigi grundvallarbreytingar á kerfinu. Aðspurður sagðist hæstv. heilbrigðisráðherra svo sem tilbúinn að eiga orðastað við þingmenn ef hugur þeirra stæði til og þá þurfum við að segja hátt og rækilega þannig að heyrt verði að hugur okkar stendur til þess, hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson, að eiga orðastað við þig um þessi efni.