145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Í rannsóknarskýrslu Alþingis er talað um lagahyggju. Það er fjallað um það að á árunum fyrir hrun hafi það háð samfélaginu meira og minna að lög voru metin eftir bókstafnum en ekki anda laga. Þegar hæstv. fjármálaráðherra er spurður út í þetta, af hverju kjör aldraðra og öryrkja hækka ekki eins og lægstu laun, þá vísar hæstv. ráðherra í lagabókstafinn, 69. gr. laga um almannatryggingar og þar standi að kjör eldri borgara og öryrkja hækki samkvæmt almennri launaþróun eða samkvæmt vísitölu eftir því hvort er hærra. Andi þessara laga, leyfi ég mér að fullyrða, er sá að standa eigi vörð um kjör aldraðra og öryrkja.

Nú gerist það að samið er sérstaklega fyrir þá sem eru með lægstu launin sem eru sannarlega, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns, þessi hópur eða hluti þessa hóps að minnsta kosti. Mætti því ekki spyrja hv. þingmann hvort ekki megi vísa í anda þessara laga, þegar það gerist sem gerðist í samningunum í vor að lægstu laun voru lækkuð sérstaklega, hvort ekki eigi að líta til þess þegar horft er á kjör aldraðra og öryrkja og að þess vegna sé tillaga minni hlutans í fjárlaganefnd sanngjörn og vel í takt við anda laga um almannatryggingar?