145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög mikið rætt um hækkun matarskattsins á sínum tíma og okkur er það mörgum í fersku minni þegar framsóknarmenn voru hver á fætur öðrum í fjölmiðlum og annars staðar ósáttir við fyrirhugaða hækkun á matarskatti og var vísað til orða hæstv. forsætisráðherra fyrr á dögum þar sem hann taldi öll slík áform mjög hættuleg. En síðan þegar allt kom til alls þá taldi Framsóknarflokkurinn í lagi að hækka matarskattinn vegna þess að hækkunin var minni en áform höfðu verið uppi um og eins og ég hafði skilið það einmitt vegna þess að til þessara mótvægisaðgerða hafði komið.

Ég velti því fyrir mér að hve miklu leyti þessi umræða hefur verið í dagsljósinu. Ég held að það sé alveg sama hvernig maður lítur á þetta, þetta getur ekki kallast neitt annað en svik. Þetta eru bara svik. Þegar talað er um að 1.400 millj. kr. verði settar til að bæta það högg sem barnafjölskyldur urðu fyrir út af matarskattshækkuninni sem er sannarlega það sem þyngst vegur í innkaupum barnafjölskyldna og síðan í fjáraukanum hér einhvers staðar mitt á milli línanna er þetta meira og minna allt saman dregið til baka, þá er það ekkert annað en svik. Mér þætti bara fróðlegt að vita hvort allir þingmenn Framsóknarflokksins hér á Alþingi séu meðvitaðir um að þarna er ekki bara verið að fara í bakið á þjóðinni og þeim sem þurftu að láta þetta yfir sig ganga heldur líka þeim þingmönnum sem greiddu þessu atkvæði eftir langa mæðu í góðri trú, vil ég trúa, vegna þess að þeir hafi talið að þarna væri um fullnægjandi mótvægisaðgerðir að ræða.

Ég velti fyrir mér hvort þetta endurspegli að einhverju leyti samskipti stjórnarflokkanna, hvort þetta sé í raun og veru ákvörðun Sjálfstæðisflokksins sem Framsóknarflokkurinn lætur síðan yfir sig ganga eða hvort hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, styður þessa nálgun.