145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

lækkun tryggingagjalds.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Forusta Alþýðusambandsins hefur gert við það alvarlegar athugasemdir að hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að lækka tryggingagjald um komandi áramót.

Fyrir liggur af hálfu forustu Samtaka atvinnulífsins að lækkun tryggingagjalds er forsenda SALEK-samkomulagsins sem gert var í haust og hæstv. fjármálaráðherra lauk miklu lofsorði á. Það liggur líka fyrir af hálfu forustu Samtaka atvinnulífsins að hún mun ekki standa að endurskoðun kjarasamninga í febrúar næstkomandi að óbreyttu og félagsmenn Alþýðusambandsins munu því væntanlega vera nauðbeygðir til þess að setja fram kröfugerð að nýju.

Þetta er sérkennilegt því að við höfum oft heyrt frá hæstv. fjármálaráðherra umfjöllun um mikilvægi þess að lækka tryggingagjald. Þetta er gríðarlega óréttlátur skattstofn. Hann leggst auðvitað á laun, dregur þar af leiðandi úr fjölgun starfa og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Hann leggst þyngst á þekkingarfyrirtæki vegna þess að þar er mannauðurinn stærstur hluti rekstrarkostnaðar fyrirtækjanna og hann leggst hlutfallslega þyngra á lítil fyrirtæki en stór.

Það er gríðarlegt svigrúm til lækkunar tryggingagjalds vegna þess að atvinnuleysi hefur dregist mjög mikið saman og svigrúm að minnsta kosti til að lækka það um 2%. Það er núna 7,5% af launum.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hverju sætir. Hvers vegna hann vill ekki standa við endurtekin fyrirheit um að lækka tryggingagjaldið og hvernig ætlar hann þá að mæta Samtökum atvinnulífsins og aðilum vinnumarkaðarins að öðru leyti með mótvægisaðgerðum til að gera almenna vinnumarkaðnum mögulegt að axla þær kauphækkanir sem eru í pípunum í ljósi (Forseti hringir.) kjaradómsniðurstöðu á þessu ári?