145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

lækkun tryggingagjalds.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í ríkisfjármálaáætlun, sem kynnt var hér á vormánuðum, var boðað að á næstu fjórum árum mundi tryggingagjaldið lækka umfram það sem þegar er búið að lögfesta en síðasti áfangi þeirrar lækkunar kemur til framkvæmda nú um áramótin þegar tryggingagjaldið lækkar um 0,14%. Það er að gerast nú um áramótin í samræmi við það sem áður hafði verið ákveðið.

Við gerð kjarasamninganna síðastliðið vor kom síðan fram að af hálfu vinnuveitenda sérstaklega og stéttarfélaganna var óskað eftir því að við mundum forgangsraða frekar í þágu lækkunar á tekjuskatti. Við breyttum þess vegna um kúrs, eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins, og hurfum frá áður boðaðri lækkun upp á heilt prósent tryggingagjaldsins á fjórum árum og lögðum áherslu á tekjuskattinn.

Það var þegar við sýndum á spilin hvað þetta varðaði og vorum tilbúin til að gefa yfirlýsingu um þetta loforð sem hægt var að ganga frá kjarasamningum síðastliðið vor. Um þetta var enginn ágreiningur. Það minntist ekki nokkur maður á að við hefðum átt að lækka tryggingagjaldið meira þegar kjarasamningalotunni lauk.

Það hefur síðan hins vegar gerst í millitíðinni, m.a. eftir verkföll og gerðardómsniðurstöðu, að launaþróunin er talsvert umfram það sem menn væntu á þeim tíma. Það er erfitt viðfangsefni fyrir Samtök atvinnulífsins og aðra þá sem eru að undirbúa það núna, í kjarasamningalotunni með ASÍ, hvernig eigi að velta þeim miklu hækkunum sem orðið hafa á árinu yfir á almenna markaðinn þannig að rúm sé fyrir það hjá atvinnulífinu.

Það breytir því ekki að svona enduðu málin síðastliðið vor og ég hafna því að það hafi legið fyrir að það væri einhver forsenda fyrir SALEK-samkomulaginu að tryggingagjaldið ætti að lækka núna um áramótin, enda segir það hvergi í SALEK samkomulaginu. Það var hins vegar talað um mótvægisaðgerðir. (Forseti hringir.) Og við verðum áfram reiðubúin til þess að ræða lækkun tryggingagjaldsins umfram það sem við höfum þegar gert. Ég tel að það þurfi að gerast yfir lengri tíma. Það er ekki innstæða fyrir tugmilljarða lækkun þess núna um áramótin.