145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[15:12]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar átti að leggja fram 184 mál. Staðan nú er þannig að fram eru komin 45 frumvörp og 11 þingsályktunartillögur, 56 mál. Af þessum 45 frumvörpum eru 8 frumvörp EES-mál og af 11 þingsályktunartillögum eru 7 EES-mál þannig að ekki er mikið af málum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og það sem er eftir af þessu eru einkum mál sem eru endurflutt. Ég er ekki endilega að kvarta yfir því að stjórnvöld komi ekki fram með mál, ekki eru öll mál sem ríkisstjórnin leggur fram endilega góð og kannski bara gott ef við fengjum tækifæri til að ræða góð þingmannamál. En þetta vekur samt sem áður athygli.

Nú skil ég það þannig að ráðherrar séu einhvers konar verkefnisstjórar sem þurfi að tryggja að mál þeirra séu unnin í ráðuneytunum. Ég geri ekki lítið úr því, það er örugglega áskorun að setja saman frumvörp, en ég hlýt að spyrja hvort ráðherrar í þessari ríkisstjórn séu starfi sínu vaxnir og hvort hæstv. forsætisráðherra sem á að stýra ríkisstjórninni sé nógu góður verkstjóri. Ég vil gjarnan fá skýringar á þessu. Mér finnst þetta vera sláandi tölur.