145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta ættu nú ekki að vera sláandi tölur ef hv. þingmaður hefur fylgst með sambærilegum tölum undanfarin ár, ef ekki áratugi. En hvað sem því líður þá má gera ráð fyrir því að ekki komi fram yfir höfuð öll mál sem eru á lista yfir mál sem kemur til greina að leggja fram fyrir áramót. Hv. þingmaður ætti að gleðjast yfir því. Það á ekki að vera sjálfstætt markmið að menn séu alltaf að gera sem mestar breytingar á lögum. Það á að vera markmið að gera góðar breytingar.

Ríkisstjórnin hefur unnið hlutina þannig að hún kemur með vel ígrundaðar og góðar breytingar á lögum, ekki eins og við upplifðum á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í.) þar sem skattalögum var breytt og líklega voru gerðar yfir 200 breytingar á skattalögum og í langflestum tilvikum til hækkunar.

Hér höfum við einsett okkur að vinna hlutina vel, gera færri en betri breytingar. En að sjálfsögðu viljum við halda þinginu eins upplýstu og kostur er og þess vegna kynnum við lista yfir öll þau mál sem við sjáum fyrir okkur að gætu komið fram.