145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upphæð veiðigjalda.

[15:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta var alveg dæmigerð ræða fyrir hugsunarhátt vinstri manna gagnvart atvinnulífinu, þ.e. að skammta sér einhverja tiltekna fjárhagslega stærð úr einhverri ákveðinni atvinnugrein. (Gripið fram í.) Ég veit (Gripið fram í: …gjaldið.) að það er erfitt fyrir vinstri menn að hlusta (Forseti hringir.) á þetta — skammta sér ákveðna fjárhæð, sagði ég. Hv. þingmaður lagði upp með að 12 milljarðar væri bara fínt gjald og ef sú tala lækkaði (Gripið fram í.) eitthvað — Jú, það var uppleggið … (BVG: … ég sagði aldrei að … ) (Forseti hringir.) Ég hélt að ég væri með orðið núna og þyrfti ekki að eiga orðastað við menn úti í sal á meðan ég væri að svara.

(Forseti (EKG): Hæstv. fjármálaráðherra hefur orðið.)

Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn mun á kjörtímabilinu taka tugi milljarða í veiðigjöld sem er langt, langt umfram það sem vinstri stjórnin gerði á sínu kjörtímabili, langt umfram það. Það er auðvitað ekki nóg. Útvegurinn mun líka skila tugum milljarða í tekjuskatta og launatengda skatta. Það er auðvitað heldur ekki nóg. Sjávarútvegurinn er eina greinin á Íslandi og eina sjávarútvegsgreinin í heiminum sem skilar sköttum af því tagi og í þeim mæli sem gert er á Íslandi. Það er auðvitað ekki heldur nóg.

Menn hafa hér verið að keppast við að finna leiðir til þess að vega frekar að greininni sem mun á endanum ekki leiða til annars en að menn muni fjárfesta minna, arðurinn mun minnka og skattstofninn sem menn halda að sé bara einhver gefin stærð mun hverfa. (BVG: Hver eru …?) Þannig mun þetta verða.

Niðurstaðan er sú hjá þessari ríkisstjórn að stilla gjöldunum þannig fram að þau séu sanngjarnari. Við erum að fá til okkar milljarðatugi umfram það sem vinstri stjórnin tók, en álagningin er sanngjarnari. Það er góð niðurstaða fyrir sjávarútveginn og fyrir þjóðina. (LRM: Fyrir suma.)