145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu.

[15:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Aðeins á léttari nótunum. Samtök iðnaðarins telja fjölda íbúða í framleiðslu tvisvar á ári. Talningin fer þannig fram að tveir menn setjast upp í bíl og keyra um borg og byggð og handtelja fjölda íbúða. Úr því kemur ákveðin tölfræði um hversu margar íbúðir eru fokheldar og eru ekki orðnar fokheldar enn þá. Þau gögn eru notuð til ýmissa verka.

Nú hefur verið sýnt fram á að það er uppsöfnuð þörf á byggingu íbúða frá undanförnum árum. Rétt núna erum við að komast í þann farveg að það er verið að byggja jafn margar íbúðir og þörf er fyrir. En uppsöfnuð þörf er um tíu þúsund íbúðir á næstu þremur árum samkvæmt tölum Samtaka iðnaðarins.

Það hafa áður verið svona aðstæður uppi þar sem skjótlega hefur þurft að byggja íbúðir, Eyjahraunið í Þorlákshöfn, Breiðholtið, fleira slíkt. En það er áhugavert hvaðan þessi gögn koma, þ.e. ákvarðanir um uppbyggingu eru teknar út frá ákveðnum þörfum og út frá gögnum. Gögnin eru tveir í bíl að handtelja íbúðir í byggingu og það er augljóst að slík gögn eru ekki mjög nákvæm. Hversu margar tveggja, þriggja eða fjögurra herbergja íbúðir eru í byggingu? Hvert er ætlað íbúðarverð? Hver er tilgangurinn með íbúðunum, er það íbúðir fyrir eldri borgara, stúdenta, félagslegar eða almennar íbúðir?

Spurning mín er: Af hverju get ég sem almennur borgari ekki flett upp upplýsingum um húsnæði í byggingu, hversu margar íbúðir og hvenær þær eru tilbúnar? Hvar eru nauðsynlegar upplýsingar sem notaðar eru sem grundvöllur ákvarðana um uppbyggingu og ýmis hagfræðimódel sem efnahagskerfið okkar byggir á?