145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

samkeppni á bensínsölumarkaði.

[15:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Enn einn áfellisdómurinn yfir olíufélögunum og framgöngu þeirra á bensínsölumarkaði er kominn fram og ég spyr ráðherra samkeppnismála hvort hann taki undir það að á bensínsölumarkaðnum hafi verið óviðunandi ástand um langt árabil með óhóflegum kostnaði fyrir bíleigendur í landinu. Samkeppniseftirlitið leiðir rök að því að þetta sé umframálagning sem geti numið um 20 kr. á hvern bensínlítra sem seldur er í landinu. Það geti verið um liðlega 4 milljarða að ræða í óeðlilegri álagningu á heimilin í landinu sem eru tugir þúsunda króna fyrir hvert heimili í landinu. Ég spyr fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þessu mati.

Vakin er athygli á því að hagnaður félaganna fylgi álagningunni á bensínið. Dregið er fram að við veikingu krónunnar aukist jafnan hagnaður félaganna því að verðlækkanirnar skili sér miklu síður til neytenda en verðhækkanirnar. Það er gengið svo langt að tala um að á þessu árabili, 2005–2012, hafi verið þegjandi samhæfing á markaði hjá félögunum sem hafi skapað þeim skjól til þessarar óeðlilegu verðlagningar.

Ég vil spyrja fjármálaráðherra til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til þess að stöðva þessa óþolandi einokunartilburði á bensínmarkaði, hvernig eigi að auka þar samkeppni eða hvort ráðherrann telji koma til greina, núna þegar við höfum reynt frjálsa verðlagningu á þessum markaði frá því upp úr 1990 með litlum árangri vegna óeðlilegra samkeppnishamlandi aðgerða þessara félaga og samsæris gegn neytendum á köflum, að grípa til opinberrar verðstýringar á bensínsölumarkaði til að stoppa þetta okur á bíleigendur.