145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

samkeppni á bensínsölumarkaði.

[15:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú skil ég ekki alveg hvað hæstv. fjármálaráðherra er að segja okkur. Er hann að segja okkur að á fákeppnismarkaðnum, bensínsölumarkaði á Íslandi sé hörð samkeppni? Er það skoðun ráðherrans að það ríki hörð samkeppni á bensínsölumarkaði eða er hann sammála Samkeppniseftirlitinu um að það sé þögul samhæfing eða ástæða til að ætla að þögul samhæfing sé í gangi? Telur ráðherrann að bensínverð geti verið um það bil 20 kr. of hátt á hvern lítra vegna skorts á samkeppni eða telur hann að það sé hörð samkeppni? Ef hann hefur engin úrræði af hverju hafnar hann þá opinberri verðstýringu? Af hverju geta lítil lönd, frjálslynd og markaðssinnuð eins og Lúxemborg og Belgía, beitt opinberri verðstýringu til þess að koma í veg fyrir svona okur á neytendum en ekki við? Hversu lengi eigum við að una því að milljarðar séu teknir af heimilunum á hverju ári í óhóflegt okur á bensíni án þess að hafast nokkuð að hér í þinginu?