145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að gera að umræðuefni vinnubrögð og afgreiðslu við fjárlögin. Búið er að bíða lengi eftir því að fjárlög verði afgreidd til 2. umr. og síðasta laugardag voru gerðar afar viðamiklar breytingar á örskömmum tíma sem lagðar voru fram án umræðu. Það er mjög bagalegt að slíkt skuli vera gert burt séð frá því hvort hægt er að funda síðar um þær eða ekki, vegna þess að þegar um svo viðamiklar breytingartillögur er að ræða þýðir það að við í minni hlutanum, sem erum þrjár, höfum verið að vinna að nefndaráliti okkar sem tekur þá líka töluverðum breytingum. Við höfum einn aðstoðarmann eða ritara sem getur kannski unnið með okkur í frágangi og öðru slíku. Það er mikið álag núna og ég var til dæmis að skila mínu inn í yfirlestur í þessum töluðum orðum, enda hálfmóð hér í pontu.

Vinnubrögðin eru auðvitað ekki ásættanleg þegar meiri hlutinn leggur fram breytingartillögur upp á 9 milljarða, sem engin rök eru færð fyrir og ekki hafa verið til umræðu í nefndinni nema sumar þeirra og þá að litlu leyti. Aðrar hafa verið til umræðu en ekki hefur gefist tími til að ræða það ítarlega við meiri hluta fjárlaganefndar og þrátt fyrir að það hafi verið rætt að hugsanlegt væri að koma á fundi einhvern tíma þá hefur það bara verið þannig að við í minni hlutanum höfum verið á kafi við að reyna að útbúa nefndarálit okkar og höfum hreinlega ekki haft tækifæri sjálfar til að funda.

Ég átel svona vinnubrögð og beini því til forseta (Forseti hringir.) að hann ræði við sitt fólk í meiri hlutanum um að svona lagað gerist ekki aftur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna