145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Blússandi góðæri, segir bankastjóri Landsbankans í nýlegu viðtali. Enn fremur segir hann að staða heimilanna sé góð, atvinnuleysi lítið, kaupmáttur mikill, hagvöxtur mikill og skuldsetning eða eignastaða orðin mjög góð.

Er þetta sá veruleiki sem blasir við öllum almenningi í landinu? Nei, það held ég varla, langt í frá. Hann segir enn fremur: Kreppan er búin og við lifum góða tíma.

Mikið er nú gott að einhverjir geta hallað sér aftur á bak og strokið á sér ístruna.

Landsbankinn er í eigu okkar, þjóðarinnar, 98% í eigu ríkisins, en virðist oft og tíðum vera ríki í ríkinu og hvorki hafa nokkrar samfélagsskyldur né neinn skilning á stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Hann hefur undanfarið skellt í lás mörgum útibúum vítt og breitt um landið. Það er öll samfélagshugsunin á þeim bænum.

Landsbankinn skilar arði til ríkissjóðs, eitthvað um 26 milljörðum í ár. Það væri ýmislegt hægt að gera fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu, byggja upp velferðarkerfið og nýta þá fjármuni til góðra hluta. Ríkisstjórnin kýs hins vegar að gera það ekki.

Landsbankinn hefur ásamt öðrum fjármálastofnunum verið að endurreisa ýmis fyrirtæki á nýrri kennitölu fyrirtækja sem þurft hafa að afskrifa háar fjárhæðir, jafnvel til sömu eigenda og styður þannig við kennitöluflakk.

Sú gífurlega eignatilfærsla sem verið hefur í þjóðfélaginu frá því að þessi ríkisstjórn tók við endurspeglast í orðum landsbankastjórans sem ég nefndi að ofan. Það er ekki blússandi góðæri fyrir alla og það er (Forseti hringir.) eins og hugsunin sé, bæði hjá þessari ríkisstjórn og bankastofnununum, að aðrir megi éta það sem úti frýs.


Efnisorð er vísa í ræðuna