145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hrósað hafa Vegagerðinni og björgunarsveitum og lögreglu fyrir vasklega framgöngu í óveðrinu í gær. Það er til fyrirmyndar að vegum og landsvæðum sé lokað fyrir allri umferð svo allir geti verið öruggir heima eins og við flestir þingmenn vorum reyndar líka í gær og tókum þannig þátt í að skapa öruggt umhverfi.

Mig langar að ræða um ágang sjávar í Vík í Mýrdal. Það var ekki síst í gær og í nótt sem stórsér á sandvarnargarði sem er við Vík sem settur var upp 2011 og hefur í raun bjargað fjörunni og þar með plássinu frá því að eyðast upp. Nú á næsta ári verða settar 40 millj. kr. til að byggja frekar upp og laga þennan garð. Hann skemmdist reyndar mjög mikið í nótt og það eru vond tíðindi fyrir Mýrdælinga og Víkurbúa. Upp á síðkastið hefur mikill sandburður verið austan megin við sandfangarann sem er fyrir neðan Víkurskálann þar sem ferðamennirnir koma á hverjum degi. Vík í Mýrdal er fimmti fjölmennasti ferðamannastaður á Íslandi. Þangað koma að jafnaði 10–20 rútur á dag. Þar eru fimm eða sex hótel opin allt árið og veitingastaðir og er því mikið í húfi að laga til í fjörunni. Ég vil hvetja viðeigandi yfirvöld og Vegagerðina að nú þegar verði aðstæður skoðaðar í fjörunni í Vík og metið hvað hægt er að gera. Nú eru komnir mannhæðarháir bakkar þar sem sandurinn skolast undan melgresinu sem búið er að hefta sandfokið í byggðinni. Þetta er mikilvægt mál (Forseti hringir.) á jafn fjölmennum ferðamannastað og Vík í Mýrdal.


Efnisorð er vísa í ræðuna