145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við vorum á það minnt síðastliðna nótt að manneskjan má sín lítils andspænis náttúruöflunum, eins og fleiri þingmenn hafa nefnt hér í dag, og við mættum hugleiða oftar hvílíkan auð við eigum, íslenskt samfélag, í viðbragðsaðilum okkar, almannavörnum, lögreglu, en ekki síst í björgunarsveitum landsins.

Innan Landsbjargar starfa þúsundir manna í 186 félagseiningum sem sjálfboðaliðar í almanna- og öryggisþágu. Þetta fólk leggur á sig ærna vinnu, þjálfun og sérhæfingu sem í sumum tilvikum er svo fagleg og sérhæfð að hún stenst samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Við eigum í Landsbjörgu þéttriðið öryggisnet; flugbjörgunarsveitir, björgunarskip, óveðurssveitir, fjallabjörgunarsveitir, kafara og leitarsveitir, fyrir utan slysavarnadeildirnar og unglingastarfið, svo fátt eitt sé upptalið. Það vill þannig til að ein þessara sveita, Björgunarhundasveit Íslands, er 35 ára í dag. Sú sveit sérhæfir sig í að leita að týndu fólki með aðstoð hunda, bæði snjóflóðaleitarhunda og í víðavangsleitum. Þjálfun fjórfætlinga og fólks í þessari sveit er tímafrek og krefjandi, en hefur fyrir löngu sannað gildi sitt eins og kom best í ljós í snjóflóðunum á Vestfjörðum fyrir 20 árum. Þannig starfa björgunarsveitarmenn um allt land allar vikur ársins án þess að eftir því sé tekið nema þegar mikið liggur við og aðstoðar er þörf.

Herra forseti. Þetta er auðlind í okkar samfélagi. Þekking þessa fólks og reynsla, en þó sérstaklega hugarfarið sem við stjórnmálamenn mættum taka okkur stundum til fyrirmyndar hér á þessum vettvangi í okkar daglega reiptogi og karpi.


Efnisorð er vísa í ræðuna