145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. „Segðu mér hvernig samfélag virðir eignarréttinn og ég skal segja ykkur hvort það er gott eða vont samfélag“, sagði maður nokkur einu sinni. Þá sagði annar: „Segðu mér heldur hvort fólkið nýtur tjáningarfrelsis og þá skal ég segja ykkur hvort það er gott samfélag.“

Þeir sem sögðu þetta höfðu báðir mikið til síns máls. En það er þó annað sem ég held að einkenni gott samfélag, það er hvernig búið er að börnunum og sérstaklega þeim sem þurfa stuðning vegna félagslegra aðstæðna, bágs efnahags eða fötlunar. Það er langbesti mælikvarðinn á það hvort samfélag er gott eða vont og ég held að mjög margir Íslendingar taki undir það.

Ég held líka að langflestir Íslendingar vilji að vel sé stutt við börn sem á þurfa að halda vegna félagslegra, erfiðra aðstæðna og ég legg undantekningarlítið mikla áherslu á að gera eigi það sem mögulegt er til að öll börn í þessu landi fái sem jöfnust og best tækifæri og þurfi ekki að þola mismunun vegna aðstæðna sinna.

Lífeyrissjóðir hófu nú í janúar síðastliðnum að skerða lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega með tilliti til barnalífeyris sem þeir fá greiddan frá almannatryggingum. Breytingin byggir ekki á grundvelli laga eða á breyttum samþykktum viðkomandi lífeyrissjóða, hér er einungis um breytta framkvæmd að ræða. Bitnar það einkum á börnum örorkulífeyrisþega og verið er að skerða enn frekar möguleika barnanna til að njóta þess sem börn eiga að geta notið í þessu samfélagi.

Herra forseti. Á hvaða leið erum við eiginlega? Viljum við ekki örugglega að öll börn í okkar ríka landi hafi sem jöfnust tækifæri óháð efnahag foreldranna? Með því að skerða lífeyrisgreiðslur til örorkulífeyrisþega frá lífeyrissjóðum vegna barnalífeyris almannatrygginga er verið að stuðla að ójöfnuði. Foreldrar sem hafa úr litlu að spila munu síður geta veitt börnum sínum það sem önnur börn í íslensku samfélagi njóta og afleiðingarnar eru augljósar og þekktar og svo ljótar gagnvart börnunum. Þau geta ekki verið með, verða út undan og einangrast jafnvel. Það er ekki gott samfélag sem vill stefna í þá átt.


Efnisorð er vísa í ræðuna