145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Núna um næstliðna helgi var athygli mín vakin á og hnippt í mig vegna húsagerðar. Þá rifjaðist upp fyrir mér að Íslendingar eru sérfræðingar í endurnýtingu húsa. Þannig býr Stjórnarráð Íslands við það að vera í gömlu tugthúsi, það er að vísu búið að skipta um áhöfn. Innanríkisráðuneytið er í gamalli kartöflugeymslu, Listasafnið í íshúsi, Þjóðskjalasafnið er í aflóga mjólkurstöð og það stóð til, eða a.m.k. kom fram sú hugmynd, að setja Þjóðminjasafn í kjötvinnslu.

Það er líka þannig með einkafyrirtæki að þau fara í endurnýtingu. Þannig var að Íslandsbanki var settur inn í frystihús en forstjóri þess frystihúss sagði við bankastjóra þess banka hver var stofninn í Íslandsbanka, og með leyfi forseta ætla ég nú að vera orðljótur og hafa beint eftir forstjóranum, eftir ævisögunni, og ég ætla að segja: „Fari þér og banki yðar til helvítis.“ Bankinn endaði í frystihúsinu og fór á hausinn.

Nú á að fara að taka upp aldargamlar teikningar til þess að byggja hér á Alþingishúsreit og það er ekki endurnýting á húsum heldur endurnýting á teikningum. Ég vil aðeins segja það að byggingarlist endurspeglar vissulega þann samtíma þegar byggt er og það er byggt eftir notagildi á hverjum tíma og þá tökum við ekki aldargamlar teikningar.

Ég segi eins og sálmaskáldið sagði forðum í ljóði Steins Steinars: „Húsameistari ríkisins!/Ekki meir, ekki meir!“

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.


Efnisorð er vísa í ræðuna