145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að afgreiða orðinn hlut sem er ekki í samræmi við fjárreiðulög eins og þetta er lagt fram. Verið er að bæta í stórum liðum sem voru fyrirséðir en ekki ófyrirséðir eins og fjáraukalögin eiga að ganga út á. Vegagerðin í sumar, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, allt var þetta sem minni hlutinn benti á við fjárlagagerðina og lá alveg ljóst fyrir og þetta er annað árið í röð sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fer inn í fjárlagaár með enga fjármuni.

Meiri hlutinn leggur ekki til afturvirkni til elli- og örorkulífeyrisþega og því leggur minni hlutinn fram tillögu í þá veru. En í ljósi þess hvernig þetta er hér fram komið lýsum við ábyrgðinni á hendur stjórninni og sitjum hjá við afgreiðslu þessa máls.