145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hraklega frammistöðu þessarar ríkisstjórnar í samgöngumálum sem hefur enga samgönguáætlun afgreitt og er komin hátt á sitt þriðja ár í embætti. Verkefni í samgöngumálum eru þar af leiðandi með tilviljanakenndum hætti afgreidd í gegnum fjáraukalög. Hér er verið að leggja til þá breytingu að greiðslur úr ríkissjóði til samgöngumála lækki um 1,1 milljarð kr. vegna þess að markaðir tekjustofnar gefa meira af sér. Eðlilega fær Vegagerðin að njóta þess. Það er nú ekki að verða stórt framlagið sem ríkið sjálft leggur af mörkum til aukinna samgönguframkvæmda. Hér var náttúrlega augljós vanáætlun á ferð og öllum ljóst að fjárlögin, eins og þeim var lokað, mundu ekki ganga upp þó að ekki kæmi annað til en þörfin í vetrarþjónustu og viðhald.

Það er ekki hægt að gefa þessari frammistöðu í heild sinni annað en falleinkunn. Þetta er tilviljanakennd geðþóttastjórnsýsla. Samgöngumálin eiga betra skilið en að vera í höndunum á liði sem ástundar svona vinnubrögð. Það er mjög dapurlegt fyrir þing og þjóð að horfa upp á þetta, (Forseti hringir.) jafn aðkallandi og brýn og þörfin er nú út um allt.