145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Oft hef ég komið hér í ræðustól síðustu missirin til að ræða um það mál sem hér er verið að greiða atkvæði um, þ.e. þá tillögu minni hlutans að aldraðir og öryrkjar fái afturvirka launahækkun eins og allir aðrir í þjóðfélaginu, þar með talið við þingmenn, ráðherrar og aðrir sem kjararáð hefur fjallað um.

Ég trúi því ekki að stjórnarmeirihlutinn ætli ekki að stíga það sjálfsagða skref að aldraðir og öryrkjar sitji við sama borð og aðrir. Við erum að tala um þetta nú þegar verið er að afgreiða fjáraukalög fyrir þetta ár og það lítur út fyrir, samkvæmt pappírum, að 22 milljarða kr. afgangur sé á þeim. Ég ætla að spá því að þegar árið verður gert upp þá verði það ekki 22 milljarðar heldur jafnvel 32 milljarðar sem verði afgangs þegar upp verður staðið.

Það er eiginlega óskiljanlegt hvers vegna stjórnarmeirihlutinn stendur ekki að því að mynda þessa sátt og koma með þessa launahækkun til aldraðra og öryrkja eins og allir aðrir fá.

Ég lifi hins vegar í þeirri trú og von að á milli 2. og 3. umr. verði þetta mál skoðað. Mér finnst að formaður fjárlaganefndar hafi nefnt þetta og ég hef verið í útvarpsviðtali með einum þingmanni Framsóknarflokksins sem sagði að þetta væri á borði hæstv. fjármálaráðherra. Ég bíð eftir að það verði tekið af borðinu og borið hingað til þings.

Virðulegi forseti. Ég segi já.