145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggjum við minni hlutinn til að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir frá 1. maí á þessu ári, að sá hópur verði ekki einn skilinn eftir. Allir aðrir hópar þjóðfélagsins hafa verið að semja um hærri laun en aldraða og öryrkja á að skilja eftir.

Við leggjum þetta til vegna þess að þetta er mikið réttlætismál. Fullorðinn maður á Ísafirði hafði samband við mig í gær og honum var mjög mikið niðri fyrir. Hann er búinn að vinna erfiðisvinnu frá því að hann fermdist og í dag fær hann 127 þús. kr. frá lífeyrissjóðnum sínum og 60 þús. kr. frá almannatryggingum. Þannig búum við að eldra fólki í landinu. Þetta er það sem við bjóðum eldra fólki upp á sem hefur unnið erfiðisvinnu alla sína hunds- og kattartíð, einungis þessa fjárhæð, 187 þús. kr. á mánuði. Við eigum ekki að líða slíkt og þess vegna treysti ég því að þingmenn greiði þessari tillögu atkvæði sitt. Ég segi já.