145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:35]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óásættanlegt, þegar land er að rísa á ný og ríkisbúskapurinn að vænkast eftir erfið ár, að þá skuli ekki vera byrjað á því að leiðrétta skertan hlut hópa eins og aldraðra og öryrkja. Hvað þá að þeir skuli vera settir síðastir, aftast í röðina.

Það er svigrúm til staðar. Við eigum fyrir þessu og í siðuðu samfélagi ættum við að nota það svigrúm til að jafna kjör og rétta hlut þeirra hópa sem höllum fæti standa í stað þess að auka enn frekar á ójöfnuð og misrétti.

En hvað er það sem ríkisstjórnin er að gera í þessu fjárlagafrumvarpi? Hún er að forgangsraða í þágu hinna fáu og ríku á kostnað hinna smáu og mörgu. Það er algerlega óásættanlegt þegar við erum sjálf að taka við afturvirkri leiðréttingu og allir (Forseti hringir.) aðrir hópar í samfélaginu, en ekki aldraðir og öryrkjar. Þetta er bara óásættanlegt og ég segi að sjálfsögðu já.