145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:37]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga er nánast samhljóða ályktun sem var samþykkt á fundi sem Öryrkjabandalag Íslands hélt 21. nóvember síðastliðinn og hún er svo sjálfsögð að það er með ólíkindum að það eigi að fella hana.

Ég tel að ýmislegt dapurlegt hafi gerst á þeim tveimur og hálfu ári síðan þetta kjörtímabil hófst en ég held að þetta sé algjör lágpunktur ef þingheimur ætlar að skilja þetta fólk eftir í eitt skipti fyrir öll.

Landsbankastjóri sagði að hér væri blússandi góðæri og ríkisstjórnin hefur verið mjög dugleg við að berja sér á brjóst og segja að allt sé á bullandi uppleið. Samt ætla þeir að skilja þennan hóp eftir.

Herra forseti. Þetta er skammarlegt, vægast sagt skammarlegt. Ég skora á þá stjórnarþingmenn sem ætla að greiða atkvæði á móti þessu að fara og hitta þetta fólk og hlusta á sögu þess. Hún er ekki fögur. Ég segi já.