145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nær allir launamenn á vinnumarkaði á Íslandi hafa á þessu ári fengið kjarabætur í almennum samningum með niðurstöðu gerðardóms og nú síðast með úrskurðum kjararáðs. Flestir fengu þessar hækkanir á bilinu 1. mars til 1. maí eða afturvirkt til þess tíma. Það að hafna þessari breytingartillögu er sú afstaða að skilja þennan eina hóp eftir, að hann skuli engar kjarabætur fá innan ársins í samræmi við það sem nánast allir aðrir hafa fengið í landinu. Ég sé ekki hvernig á verja það viðhorf út frá jafnræðis- eða réttlætissjónarmiðum. Ég skil ekki ríkisstjórnina að skila að minnsta kosti ekki þessum kjarabótum innan ársins en taka þá frekar slaginn um viðmiðunina, hvort miða skuli sérstaklega við hækkun lægstu launa eða meðalvísitölu launaþróunar. En að gera hvort tveggja, að skila öldruðum og öryrkjum engum kjarabótum innan ársins og ætla síðan að hafa af þeim sambærilega hækkun (Forseti hringir.) og lægstu laun hækka um á næsta ári er alveg ótrúleg harðneskja í garð þessa hóps. (Forseti hringir.) Það eru helst kannski námsmenn sem eru jafn grátt leiknir af ríkisstjórninni, ef einhverjir, fyrir utan aldraða og öryrkja.

(Forseti (EKG): Þingmaðurinn segir?)

Ég segi já.