145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er gamalkunnur hljómur sem við heyrum nú í þessum sal þar sem þingmenn stjórnarmeirihlutans telja sig knúna til að fella breytingartillögu sem kemur frá stjórnarandstöðunni alveg óháð því hvert innihald hennar er. Mig langar til að beina því til stjórnarmeirihlutans hvort það sé ekki ráð að endurskoða þá afstöðu. Þetta mál er ekki búið. Það er ein umræða eftir um málið. Við vitum öll að kjaramisrétti er mikið á Íslandi og ég hygg að í hjarta okkar finnist okkur öllum það vera of mikið og þetta misrétti fer vaxandi. Auðvitað ætti að vera forgangsatriði fyrir okkur öll að draga úr því en lágmarkskrafan er að við látum eitt ganga yfir okkur öll þegar kemur að afturvirkni þessara greiðslna. Um það snýst málið.

Það kostar 6,6 milljarða kr. að gera það. Okkur er sagt að skilað verði 22 milljörðum í afgang. Við erum búin að heyra arðsemistölur bankanna sem renna í ríkissjóð. Þessir peningar eru til. (Gripið fram í.) Ég hvet þingið og meiri hluta þingmanna til að endurskoða afstöðu sína áður en málið verður endanlega afgreitt. Ég segi já.