145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að karpa um það sem áður hefur gerst. Mér finnst mikilvægt að við komum fram við fólk sem hefur skilað sínu til samfélagsins, eldri borgara, á þann hátt að það fái sambærilegar hækkanir og aðrir sem og öryrkjar. Það er réttlátt í ljósi þess að hér er vaxandi misrétti. Þetta er ekki fólk sem hefur verkfallsrétt. Það getur ekki barist fyrir kjörum sínum með öðrum hætti en þeim sem við þingmenn ákveðum. Við höfum ítrekað fengið tölvupósta þar sem við erum beðin um að koma til móts við þessar kröfur þeirra sem eru svo sjálfsagðar. Við höfum tækifæri til að gera þetta. Við erum að festa fólk í fátæktargildru. Það er mikilvægt að hugsa til þess að fólk sem hefur innan við 170–200 þús. kr. í greiðslur á mánuði til að lifa af lifir ekki sómasamlegu lífi; ég held að óhætt sé að segja það. Ég tek því undir þá hvatningu að þingmenn meiri hlutans endurskoði afstöðu sína.