145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Svo ég byrji á formsatriðinu. Ég segi já.

Hér erum við einfaldlega að greiða atkvæði um það hvort þeir sem hafa það verst í samfélaginu, sem þurfa að lifa á 170 þús. kr. á mánuði, eigi að njóta þeirra kjarabóta líka sem hafa orðið á vinnumarkaði. Það er bara verið að greiða atkvæði um það. Eiga þeir að sitja eftir eða ekki?

Ég hef verið spurður að því af þingmanni stjórnarmeirihlutans hvernig við ætlum að fjármagna þetta og hef svolítið verið vændur um að vera þátttakandi í einhvers konar popúlisma með því að styðja þessa tillögu. Mig langar að vísa slíku til föðurhúsanna. Við greiðum atkvæði um forgangsröðun þess hvernig við verjum ríkisfé. Núverandi ríkisstjórn er búin að afsala sér tekjum markvisst með alls konar ákvörðunum sem við í Bjartri framtíð höfum ekki stutt, upp á tugi milljarða. Ríkisstjórnin hefur varið tugum milljarða til þess að aflétta skuldum af efnamestu einstaklingunum í samfélagi okkar (Gripið fram í: Rangt.) og hefur síðan ekki efni á þessu. (Forseti hringir.) Þetta er mjög slæm forgangsröðun og lýsir eiginlega í mínum huga ekki bara slæmri forgangsröðun (Forseti hringir.) heldur slæmu siðferði.