145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þarna komum við að álíka vinnubrögðum og gagnvart barnabótunum. Hérna er ríkið að draga til sín til baka 200 milljónir í vaxtabætur vegna þess að fasteignamat hafi hækkað og (VigH: Skuldaniðurfellingin.) eignastaða heimilanna hafi þá batnað í kjölfar hækkandi fasteignamats. En greiðslustaðan batnar ekki. Hefur fasteignamat verið að hækka vítt og breitt um landið? Er það ekki bara á ákveðnu markaðssvæði sem það hefur hækkað?

Þessi ríkisstjórn er búin að vera að basla við að reyna að uppfylla heimsins mestu kosningaloforð sem nokkurn tíma hafa verið gefin á byggðu bóli varðandi að lækka skuldir heimila og annað en (Gripið fram í.) hefur ekki enn þá komið með neinar tillögur að neinu gagni í húsnæðismálum fyrir ungt barnafólk í landinu. Það er svo aumt að sjá að hún dragi til sín þessar 200 milljónir til baka inn í ríkissjóð í stað þess að (Forseti hringir.) lækka viðmiðunarmörkin til að nýta þessa fjármuni sem víða er þörf á.