145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og minni á að virðulegur þingmaður var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili. Samfylkingin var búin að vera sex ár í ríkisstjórn þegar þessi ríkisstjórn tók við. Núverandi ríkisstjórn tók við ástandinu í heilbrigðismálum eins og þau birtust og landsmenn vita.

Hér er spurt um greiningu á fjárlagaliðum. Það liggur ekki fyrir en launahækkun ársins sem samið var um við lækna, hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk Landspítalans er inni í þessum 50 milljörðum. Ég spurði síðast um þetta í morgun og verið er að leita að upplýsingum um það fyrir mig á nefndasviði þannig að ég get vonandi svarað þessari spurningu við 3. umr.

Varðandi stöðu okkar í tækjabúnaði og öðru sem þarf til til lækninga vil ég minna á tækjakaupaáætlun ríkisstjórnarinnar sem sett var fram í fjárlögum í fyrra og stendur. Tæpir 6 milljarðar voru lagðir í þá áætlun og hún gildir til ársins 2018 (Forseti hringir.) þannig að búið er að eyða öllum þeim peningum sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Landspítalinn er því að verða ansi vel (Forseti hringir.) tækjum búinn og verður gaman að miða okkur við OECD þegar tækjakaupaáætluninni lýkur.