145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hrædd um að við þurfum nú heldur betur að spýta í lófana og gera mun betur en áætlunin gerir ráð fyrir, bæði hvað varðar rekstrargrunn og viðhald Landspítalans. Stjórnendur Landspítalans hafa bent á að magnaukningin er 1,7% á ári, þ.e. fjölgun sjúklinga er um 1,7% á ári. Fjöldi sjúklinga er mikilvæg breyta þegar metinn er kostnaður við heilbrigðisþjónustu og er metin á um 1 milljarð kr. Ef spítalinn fær það ekki verður skorið niður um 1 milljarð á árinu 2016 og staða spítalans versnar sem því nemur.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það samræmist þeim mikla forgangi sem heilbrigðiskerfið er í í hennar huga og stjórnarþingmannanna. Hv. þingmaður nefndi hér fjölgun eldri borgara og að þar þyrfti að gera stórátak, það væri sannarlega á dagskrá meiri hluta fjárlaganefndar. En það er ekki á dagskrá að bæta upp kostnað vegna fjölgunar eldri borgara þegar kemur að Landspítalanum.