145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru svo margar spurningar að ég verð að reyna að vinsa eitthvað úr en það eru margir liðir sem mér finnast ekki nógu vel útskýrðir.

Einn liður er 150 millj. kr. til ferðamála, vegna rannsókna á sviði ferðamála, en ekkert kemur fram hvar þessar rannsóknir eigi að fara fram, hvernig þessum fjármunum verður skipt. Mér finnst það skipta máli.

Mig langar líka til að spyrja út í norðvestur-tillögurnar. Það eru töluverðar upphæðir sem fara í ýmisleg verkefni en svo fara líka 80 millj. kr. í eitthvert óljóst verkefni. Er hægt að fá upplýsingar um það í hvað þessar 80 millj. kr. fara? Það er á blaðsíðu 26 á breytingartillögunum. Ég spyr hvort ekki hefði verið eðlilegra (Forseti hringir.) að þessi verkefni hefðu farið inn í sóknaráætlun landshluta þannig að það hefði farið inn í faglegt ferli og meira jafnræðis verið gætt.