145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fyrirspurnina. Það er leitt að textinn varðandi þessar 150 millj. kr. í rannsókn á ferðamönnum sé óljós. Það upplýsist þá hér að áætlað er að því fjármagni verði útdeilt af Stjórnstöð ferðamála, þeirri nýju stofnun sem tekið hefur til starfa í samvinnu m.a. við Hagstofuna og vinnu talnagrunna, komur til landsins og annað. Það hefði mátt bæta úr þessum texta og það hefur þá komið fram í þingræðu, en þingræður og andsvör eru líka lögskýringargögn.

Ef ég er að vísa í rétta tillögu á blaðsíðu 26 varðandi þessar 80 millj. kr. þá er hún bara nokkuð skýr. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar — stofnuð var nefnd, norðvesturnefnd, til að efla það svæði og þarna er t.d. ákvæði um að hún tengist Þróunarsetrinu á Blönduósi, það er á liðnum (Forseti hringir.) Byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta. Norðvesturkjördæmi flokkast ekki sem brothætt byggð.