145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Forseti. Já, það eru margar breytingartillögur sem vekja athygli, en mér finnast mjög athyglisverðar allar tillögurnar sem varða norðvestur vegna þess að það eru mjög mörg landsvæði sem búa við sambærileg vandamál að einhverju leyti, kannski fólksflótta og einhæfni í atvinnulífi og annað. Einhvern veginn er það bara þannig að ef stofnuð er nefnd um viðkomandi landsvæði fara tillögurnar beinustu leið inn í fjárlagagerðina. Á það þá bara alltaf við eða á það bara við í þessu eina tilfelli?

Ég er að hugsa um útdeilingu á almannafé á jafnréttisgrundvelli. Ég veit um byggðir sem standa mjög illa og jafnvel enn verr en þarna. Hvert leita þær? Hvað gera þær ef þær eiga ekki einhverja fulltrúa á þingi sem geta gætt hagsmuna þeirra?

Mér finnst þetta verklag svo óljóst og tilviljanakennt, en ég er ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem eru á þessu svæði, alls ekki. En ég vildi heyra frá hv. þingmanni hvort henni finnist það vera góð vinnubrögð að gera þetta með því móti (Forseti hringir.) að taka eitt svæði og deila út verkefnum.