145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti eins og fleiri spurt um margt.

Ég vil byrja á að segja að ég hefði viljað sjá þá peninga sem rætt var um áðan fara í Rannsóknarmiðstöð ferðamála á Akureyri sem hefur séð um rannsóknir fram til þessa og staðið sig afskaplega vel í því. Ég skil ekki af hverju það á að fara inn í hina nýju stjórnstöð.

Ég hef áhyggjur eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, eða var með fyrirspurn, af sóknaráætlunum landshluta þar sem allir sveitarstjórnarmenn sem komið hafa að máli við fjárlaganefnd, hvar í flokki sem þeir standa, hafa lýst mikilli ánægju með gagnsæ vinnubrögð og því stingur þetta í stúf við það sem hér er lagt fram varðandi Norðvesturkjördæmi, burt séð frá verkefnunum, ég vil taka það fram, það snýst ekkert um það.

Ég spyr: Er hv. þingmaður sátt við að vinnubrögð fjárlaganefndar verði áfram með þeim hætti varðandi safnliðina sem hér er verið að moka inn? Sem ráðuneytunum var fengið í hendur að sinna í gagnsæju og opnu ferli, þ.e. að jafnræðis væri gætt, og hvort við eigum að halda áfram núna af gamalli hefð (Forseti hringir.) og byggja á því hverjir hafa aðgang að fjárlaganefndarmönnum eða einhverju slíku og hvað í rauninni réð því að tiltekin verkefni voru valin umfram önnur. Af hverju ekki SÁÁ á Akureyri (Forseti hringir.) eða af hverju ekki Samgöngustofa þar sem kallað var eftir öryggi sjómanna o.s.frv.? Hvað er það sem ræður för?