145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann því illa þegar verið er að saka meiri hluta fjárlaganefndar og dylgja um það að það eigi sér stað svona nokkurs konar spilling því að hér er talað um aðgengi að fjárlaganefnd.

Ég fór yfir það í framsöguræðu minni að á fund fjárlaganefndar komu fulltrúar 42 sveitarfélaga, fulltrúar nokkurra landshlutasamtaka sveitarfélaga og fulltrúar allra ráðuneytanna, Hagstofunnar, Ríkisendurskoðunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri.

Það hafa allir sama aðgang að fjárlaganefnd, en því miður held ég og er hrædd um að þetta leggist af á næsta ári þegar lög um opinber fjármál verða samþykkt því að þá falla slíkar heimsóknir líklega niður. Ég hafna því að hér hafi sumir betri aðgang að fjárlaganefnd en aðrir. Mér leiðast svona umræður þegar svona góð fjárlög og góðar breytingartillögur liggja fyrir.

En varðandi málefni fatlaðra get ég upplýst að samningaviðræður standa yfir við fulltrúa sveitarfélaganna um málefni fatlaðra og yfirfærsluna (Forseti hringir.) þannig að ég vonast til að niðurstöður úr þeim viðræðum verði brátt ljósar og því er ekki sérstaklega tekið á því í nefndarálitinu.