145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur víða við. Fyrst varðandi vinnubrögðin þá er það bara þannig að þegar breytingartillögur meiri hlutans eru skoðaðar virðist sem einstakir þingmenn eða meiri hlutinn sameiginlega hafi pikkað út verkefni til þess að styrkja án þess að nokkurt umsóknarferli hafi farið fram. Engin auglýsing var birt. Hvernig í ósköpunum geta hv. þingmenn meiri hlutans talið sig þess umkomna að ákveða þörfina fyrir þau verkefni sem pikkuð eru út? Eitt eru nú vinnubrögðin á síðasta kjörtímabili, þeim var breytt. Við auglýstum þó eftir umsóknum. Við kölluðum eftir umsóknum og töluðum við fólk. En það er ekki einu sinni gert núna heldur eru verk pikkuð út og það veldur bara tortryggni. Hafi það verið gert með öðrum hætti hlýtur hv. þingmaður að koma hér upp og útskýra fyrir okkur nákvæmlega eftir hvaða faglega ferli var farið þegar þessi verkefni voru valin.

Hv. þingmaður talar um að hún sé sannarlega til í rannsókn á einkavæðingu bankanna og ég fagna því. Ég óttast ekki neina rannsókn á því sem gerðist á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er ágætt að gera það. En við skulum ekki fara út í aðra einkavæðingu án þess að hafa lært af reynslunni og bera reynsluna saman við það sem best gerist í útlöndum, því að ekki ætlum við að setja þjóðina aftur á húrrandi hausinn með því að ástunda (Gripið fram í.) óvönduð vinnubrögð þegar út í slíkt er farið. Við skulum standa saman um það, ég og hv. þingmaður, að rannsaka einkavæðingu bankanna og hvernig endurreisn þeirra var gerð hér á síðasta kjörtímabili.