145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég komst ekki í að svara spurningu hv. þingmanns um útvarpsgjaldið. Ég skal sannarlega fara yfir tölulegar upplýsingar í nefndaráliti mínu. Ekki vil ég nú fara með staðlausa stafi. En það var slæmt að hv. þingmaður skyldi ekki geta nefnt dæmi þar sem hún vænir mig um aðrar rangfærslur því að það er erfitt að sitja undir slíkum dylgjum frá hv. formanni fjárlaganefndar. Vonandi mun það nú koma í ljós síðar.

Hvað sem öðru líður, varðandi Ríkisútvarpið (Gripið fram í.) er gert ráð fyrir því að gjaldið lækki á árinu 2016. Stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendur þess hafa sagt: Ef það gerist getur stofnunin ekki haldið úti sínu lögbundna hlutverki. Það er aðalmálið. Við skulum ekki drepa því á dreif með einhverju togi um hvað útvarpsgjaldið var hátt á þessu eða hinu árinu. Hafi ég farið með (Forseti hringir.) rangar tölur mun ég auðvitað leiðrétta þær. (Gripið fram í.)