145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt. Ég held samt að það verði alltaf að vera sambland af þessu tvennu. Sveitarfélögin sem komu fyrir hv. fjárlaganefnd í fjárlagavinnunni í ár töluðu öll um tekjustofna, að hinir lögbundnu tekjustofnar, fasteignagjöldin, útsvarið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga stæðu ekki undir þjónustunni. Þau vildu fá einmitt, töluðu um virðisaukaskattinn, hlutdeild í virðisaukaskatti. Þau þjónusta kannski ferðamenn sem skilja bara eftir sig spor í sveitarfélögunum, gista þar ekki eða kaupa nokkurn skapaðan hlut, þannig að sveitarfélögin bera í raun kostnað af ferðamönnum en fá ekki tekjur á móti. Þetta er því réttlætismál fyrir sveitarfélögin.

Við höfum talað um það hér að sveitarfélögin fái líka hlutdeild í veiðigjaldinu. Það væri eðlilegt. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að finna leiðir til þess að breikka tekjustofna sveitarfélaganna. Það er eðlilegt að horfa til virðisaukaskattsins vegna ferðamanna og veiðigjaldsins vegna fiskveiða, en það má auðvitað skoða það í víðara samhengi.