145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir nefndarálit hennar og ræðu.

Hv. þingmanni varð tíðrætt og mönnum er oft tíðrætt um að núverandi stjórn sé að afsala sér tekjum með einhverjum hætti. Mig langar þá að spyrja, vegna þess að komið var sérstaklega inn á það að gagnrýnivert væri að ekki væri verið að taka á kröfuhöfum bankanna o.s.frv., af hverju gerðist það á síðasta kjörtímabili, af hverju afsalaði ríkið sér tekjum með því að undanskilja þrotabú föllnu bankanna frá því að greiða bankaskatt? Ég veit að svarið kemur þá: Það var ekki hægt, það var svo erfitt, eignasafnið var ekki búið að mótast o.s.frv. En nú er það orðið viðurkennt, síðustu tvö árin á síðasta kjörtímabili var þetta eignasafn búið að mótast. Af hverju afsalaði þáverandi ríkisstjórn sér tekjum? Er það ekki jákvætt að við á þessu kjörtímabili skulum einmitt hafa verið að taka á kröfuhöfunum í gegnum þann skatt og höfum bætt þeim inn?

Mér hefði þótt drengilegt af hv. þingmanni að bæta því inn í upptalningu sína áðan um það hvernig núverandi ríkisstjórn væri búin að afsala sér tekjum. Núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) var að sækja tekjur í upphafi þessa kjörtímabils og hefur gert það sem fyrri ríkisstjórn gerði ekki og afsalaði sér tekjum þar af leiðandi á síðasta kjörtímabili, ef maður notar orðræðu hv. þingmanns.