145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi verið að rugla hér saman þegar hún talar um gjaldeyrishöftin. Það að undanskilja þrotabú föllnu bankanna frá því að greiða bankaskatt á síðasta kjörtímabili tengist gjaldeyrishöftunum ekki neitt. Það er allt annað mál. Mig langar að segja aftur: Þegar hv. þingmaður viðurkennir að kannski hefði verið hægt á síðasta ári að skattleggja þrotabú föllnu bankanna, af hverju undanskildi fyrri ríkisstjórn það? Af hverju er þetta ekki tekið fram í nefndarálitinu þegar verið er að tala um að afsala sér tekjum út og suður? Fyrri ríkisstjórn afsalaði sér tekjum af þrotabúum föllnu bankanna.

Síðan þegar kemur að gjaldeyrishöftunum, sem er önnur umræða, og að taka á kröfuhöfum föllnu bankanna, þá finnst mér það svolítið fátæklegur málflutningur að koma hér og halda því fram að ekki sé verið að taka á þrotabúum föllnu bankanna. Sérstaklega í ljósi þess að hv. þingmaður, flokkur hennar og stjórnarandstaðan töluðu um það sem popúlisma fyrir síðustu kosningar að yfir höfuð væri hægt að taka á þrotabúum föllnu bankanna og að þeir mundu skila einhverju inn í samfélagið (Gripið fram í.) Það er sama ríkisstjórnin og afhenti kröfuhöfunum (Forseti hringir.) bankana tvo áður en ráðist var í að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, svo dæmi sé tekið. Mér finnst þetta svolítið ódýr málflutningur (Forseti hringir.) sem var rauði þráðurinn í gegnum ræðu hv. þingmanns, ég get ekki að því gert.