145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það eru nokkur atriði sem ég rak augun í. Í fyrsta lagi er það tryggingagjaldið. Það skiptist annars vegar í atvinnutryggingagjald sem er 1,35% og svo almennt tryggingagjald sem er 5,9%. Þá þarf að huga að því hvaða hluti tryggingagjaldsins er lækkaður til að koma til móts við launþega og því um líkt þar sem aðalhlutinn af almenna tryggingagjaldinu fer í lífeyris- og slysatryggingar. Já, atvinnuleysi hefur farið minnkandi, en atvinnutryggingagjaldið er bara 1,35%.

Svo er minnst á auðlegðarskatt á þann hóp sem á mestar eignir í landinu til að fjármagna spítala. Ég er ekki alveg viss um að það sé endilega rétt bein fjármögnun á því máli.

Síðan vil ég hrósa aðeins þeim sem talað hafa um stafræna íslensku. Nú er það svo að ekki er til opin rafræn orðabók fyrir íslensku, þ.e. hún er til en það má ekki gefa hana út, sem mér finnst mjög undarlegt.

Það eru nokkur fleiri atriði sem ég vil (Forseti hringir.) minnast á í næsta andsvari.