145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það var margt, fannst mér, bæði gott og málefnalegt í ræðu hv. þingmanns, t.d. jöfnun örorkubyrði almennra lífeyrissjóða um 3.600 milljónir sem hv. þingmaður talaði um. Ég er sammála því sem hv. þingmaður nefndi varðandi lífeyrissjóðina. Ég er sammála hv. þingmanni þegar hún nefndi refsistefnu. Það er eitthvað sem við þyrftum að skoða og fannst nálgun hennar á LSH vera skynsamleg.

Hins vegar talaði hv. þingmaður mikið, og það er bara eins og tónlist í mínum eyrum, um áætlunargerð og að við þyrftum að vanda til verka. Nú er hv. þingmaður á breytingartillögu frá minni hlutanum. Þar er áætlað að settar yrðu 4.000 milljónir í bætt skatteftirlit. Síðan að liðurinn um arðgreiðslur frá fjármálastofnunum hækki um 8.000 milljónir. Við vitum og erum með ákveðna reglu um það að Bankasýslan ákvarði þetta. Við vitum (Forseti hringir.) líka að ef 4.000 milljónirnar væru fastar í hendi yrðu þær bara sóttar (Forseti hringir.) því ekki vantar peningana í skatteftirlitið, virðulegi forseti.