145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er þannig með breytingartillögur minni hluta að þær verða alltaf hálfófullkomnar vegna þess að minni hlutinn hefur í rauninni ekki neina aðkomu að því að semja fjárlagafrumvarpið. Best væri auðvitað að við gerðum eins og við hv. þingmaður þekkjum frá Svíþjóð, þar sem minni hlutinn leggur einfaldlega fram sitt eigið fjárlagafrumvarp og getur þá í rauninni haft áhrif á það frá grunni hvernig menn rótast í tekjum og gjöldum.

Ég er reyndar sannfærð um að hægt er að ná inn meiri peningum með auknu skatteftirliti. Ég skil ekki af hverju við erum ekki á fullu í því. Ég held að við gætum gert svo miklu betur. Við í fjárlaganefnd fengum mjög góðan fund með ríkisskattstjóra þar sem við ræddum þessi mál og það voru ótrúlegar upphæðir sem voru nefndar í því samhengi. En ég skal alveg viðurkenna að þegar verið er að leggja fram breytingartillögur, þá eru þær yfirleitt alltaf lagðar ofan á. Ef ég væri að gera fjárlagafrumvarpið frá grunni mundi (Forseti hringir.) ég ekki endilega vera að auka við reksturinn, en svona er þetta (Forseti hringir.) og ég stend við það að þessar tekjur væri hægt að sækja.