145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Við gerum ítarlega grein fyrir afstöðu okkar varðandi tekjuskattinn í nefndaráliti Bjartrar framtíðar við bandorminn. Það er rétt skilið að ég útiloka það ekki, en við erum mjög efins um að það sé rétt skref vegna þess að það er tæki til jöfnuðar að hafa fleiri tekjuskattsþrep. Hins vegar skal ég taka undir það að eins og staðan er í dag þá lenda menn of fljótt upp í næsta þrep. Það þyrfti til dæmis að hækka lægsta þrepið upp. Mér finnst það ekki skapa ótrúlegt flækjustig að vera með þrjú þrep. Það er eins og virðisaukaskattstillögurnar þar sem við færum þrepin nær hvort öðru, en ég fatta ekki alveg hvaða einföldun er í því. Einföldun er ef við stefnum að einu virðisaukaskattsþrepi og höfum allt þar, en svo virðast menn bara hafa hætt við. Menn byrja á því og síðan gerist ekkert meira. (Forseti hringir.) En hv. þingmaður skilur það rétt að við erum efins um þetta í Bjartri framtíð.