145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka að það sem ég taldi upp, þ.e. kröfur sveitarfélaganna um breytingar á þessu hvernig tekjuskiptingin er þá var eitt af því sem þeir nefna tryggingagjaldið, þeir vilja hlutdeild í tryggingagjaldi og jafnvel veggjöldum og annað, en ég er ekki þar með að segja ég er ekki endilega sammála því. Hins vegar skil ég kröfur sveitarfélaganna sem snúa að því ef tryggingagjaldið er lækkað þá hefur það auðvitað töluverð áhrif á sveitarfélögin vegna þess að þau eru stórir launagreiðendur. En ég er ekki endilega sannfærð um að sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í gistináttagjaldi. Ég var einfaldlega að telja upp þetta eru það sem þeir hafa farið fram á og við getum tekið undir í Bjartri framtíð að þau hafa nokkuð til síns máls. Þannig að þetta getur verið kannski bara óskýrt hjá mér í nefndarálitinu. Þá biðst ég afsökunar á því.

Eins og ég skil, ég er ekki sérfræðingur í tryggingagjaldinu, eins og ég skil það núna þá er í rauninni tryggingagjaldið stór tekjustofn fyrir ríkið og hluti af þeim tekjum rennur inn í ríkissjóð, ekki í þessi afmörkuðu tilteknu verkefni.