145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er búið að flytja nokkuð margar ræður og margir eru á mælendaskrá. Ég ætla hins vegar að nálgast þessi verkefni og ræða þetta fjárlagafrumvarp með svolítið öðrum hætti en gert hefur verið í öðrum ræðum sem hér hafa verið fluttar. Almenna reglan er sú að allar ræður hafa gengið út á það hvar mætti auka útgjöld. Ég held að það sé almenna reglan.

Ég hef heyrt ótrúlega margar ræður um að það sem við Íslendingar gerum vitlaust og höfum gert á undanförnum áratugum sé að þegar gengur vel missum við okkur í ríkisútgjöldunum. Við getum haft allar skoðanir á ríkisstjórninni og einstaka hv. þingmönnum o.s.frv. en ég held að við séum sammála um að það sé að rofa til. Af hverju hafa allir gleymt þessu? Af hverju er enginn hv. þingmaður eða enginn fjölmiðlungur, með nokkrum heiðarlegum undantekningum, sem ræðir um að nú væri kannski lag að forgangsraða og taka út það sem við þurfum ekki á að halda, taka kannski einhverjar þessara ríkisstofnana sem hafa vaxið hvað mest og hafa ekki þurft að spara? Heilbrigðisstofnanir þurftu til dæmis að spara á síðasta kjörtímabili en við gætum sagt: Eigum við ekki aðeins að hægja á hérna? (Gripið fram í.) Af hverju er sú umræða ekki í gangi? Ég er búinn að sjá tillögur hv. stjórnarandstöðu og það má alveg túlka þær sem gagnrýni á það fjárlagafrumvarp sem ég mun á endanum styðja. Ég hélt að þar kæmi kannski eitthvað en það er ekkert.

Hér hefur hv. formaður fjárlaganefndar haldið ræðu og ekki fengið eina einustu gagnrýni hvað þetta varðar. Á síðasta kjörtímabili gerðist það sem menn vissu, það varð mikið tekjufall hjá ríkissjóði. Það vita allir. Það var skilningur á því og ríkisútgjöld voru lækkuð. Það var hins vegar gert með ákveðnum hætti, það var sérstakt markmið að opinberir starfsmenn mundu ekki missa störf sín. Það gerðist að vísu á einum vinnustað, Landspítalanum, en alla jafna gerðu þeir það ekki. Fólkið á almenna vinnumarkaðnum missti störf sín. Margir gátu sem betur fer bjargað sér með því að fara til annarra landa og starfa en mjög margir urðu atvinnulausir. Við fórum ekki eftir þeim ráðleggingum sem Göran Persson flutti svo sköruglega, fyrst fyrir Samfylkinguna og síðan fyrir alþjóð, um að halda uppi atvinnustiginu eins og sú ríkisstjórn gerði sem við hv. þm. Össur Skarphéðinsson vorum í (Gripið fram í.) og lögðum upp með, að gera hvað við gætum til að halda uppi atvinnustiginu. Við gerðum ekki það sem við hefðum betur gert, að byggja spítala. Þá spítala sem við höfum byggt höfum við byggt þegar kreppa hefur verið í þjóðlífinu.

Ég ætla að vekja athygli á einu sem enginn annar hefur gert, þær stofnanir sem uxu og döfnuðu þegar þetta mikla tekjufall varð hjá ríkissjóði eru eftirlitsstofnanirnar. Frá landnámi til 2011 vorum við ekki með fjölmiðlanefnd og nákvæmlega enginn saknaði þess. Af hverju? Vegna þess að það er ekki þörf á henni. Hún vex og dafnar og hefur hækkað miðað við fyrirrennara hennar, útvarpsréttarnefnd, um 306% frá árinu 2007. Tölurnar eru ekki háar en segja samt eitthvað. Er einhver að ræða þessa fjölmiðlanefnd sem hefur svo sannarlega ekki breytt fjölmiðlum á Íslandi? Ég vona líka að hún geri það ekki, vona að það verði aldrei þannig að opinbert apparat hafi ritstjórn á fjölmiðlum á Íslandi en það má skilja á hlutverki hennar að hún nái að gera það.

Fjármálaeftirlitið hefur stækkað um 203% frá árinu 2007. Nú kynni einhver að segja: Við verðum að hafa almennilegt fjármálaeftirlit, koma í veg fyrir hrun eins og varð 2008. Þó að við værum komin með nærri 2 milljarða í þessa stofnun tókst henni samt sem áður ekki að koma í veg fyrir SpKef-málið. Það er engin vissa fyrir að þótt við setjum mikla fjármuni í eftirlitsstofnanir muni það skila sér í einhverju. Auðvitað gerir viðkomandi stofnun eitthvað, ég er ekki að segja annað, og örugglega mjög margt gott. Við hljótum samt að gera sömu kröfur til þessara stofnana og grunnþjónustunnar.

Mannvirkjastofnun hefur stækkað um 160% og á þessum tíma hafa ríkisútgjöldin alla jafna hækkað um 73%. Mannvirkjastofnun er með 1,2 milljarða í höfuðstól eða bundnu eigin fé. Svo skiljum við ekkert af hverju það er svo dýrt og erfitt að byggja á Íslandi. Halda menn að þetta tengist kannski eitthvað? Erum við eitthvað að ræða þetta? Nei.

Ef ég væri í stjórnarandstöðu mundi ég húðskamma hæstv. ríkisstjórn fyrir að gera lítið í þessum málum. Jafnréttisstofa hefur stækkað um 140% frá 2007. Eru ekki jafnréttismálin komin alveg í fullkomið lag? (Gripið fram í: Ekki í ríkisstjórninni.) Ekki síðast þegar ég vissi. Við eigum kannski að tvöfalda hana, keyra þetta upp í 300%. Það verður örugglega allt annað líf þá.

Við erum með Matvælastofnun, 135%. Lyfjastofnun, 104%. Umboðsmaður Alþingis, 100%. Ég gæti haldið áfram, sumar stofnanir vaxa verulega nákvæmlega núna, í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þessar tölur eru allar til, voru að vísu ekki til samandregnar vegna þess að ég tók þær saman, og er ekki eðlilegt að einhver segi: Væri ekki eðlilegt að við gerðum sömu kröfu til eftirlitsstofnana og til heilbrigðiskerfisins, þótt ekki væri annað?

Mér fannst forgangur síðustu ríkisstjórnar slæmur hvað það varðar að leggja helstu áhersluna á að láta þessar stofnanir vaxa en skera niður í heilbrigðismálunum. Ríkisstjórnin núna hefur forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og lífeyrismála án nokkurs vafa en hins vegar hefur ekki verið gerð eðlileg krafa til þessara stofnana.

Það eru stór verkefni fram undan sem við erum að vísu ekki að ræða, við erum aðallega að karpa. Það er yfirboð í gangi og allt í góðu með það. Kannski komumst við á einhvern þann stað að við getum til dæmis sagt: Nú er málið þannig að 67 ára og eldri mun fjölga um 50% á næstu tíu árum. Hvernig er best fyrir okkur að nálgast það?

Ég held að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að taka á öllum þáttum málsins. Við þyrftum að gera það sem við erum að gera núna, styrkja heilsugæsluna, sjá til þess að hún væri skilvirkari. Það er það sem lagt er upp með í þessu frumvarpi. Við getum haft allar skoðanir á stjórnmálum, við höfum það, en að menn vísvitandi, meðvitað og skipulega haldi því fram að einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni þýði að einstaklingar þurfi að greiða meira og menn fái ekki þjónustu o.s.frv. eru helber ósannindi og ég skal viðurkenna að sá málflutningur finnst mér fyrir neðan allar hellur. Ég hef ágætistíma hér og þess vegna ætla ég að leyfa mér að lesa grein eftir Odd Steinarsson sem er sérfræðingur í heimilislækningum, MBA og framkvæmdastjóri lækninga Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er stutt grein og ég vona að þeir hv. þingmenn sem eru að tjá sig um þessi mál hlusti á hana. Ef þeir vilja ekki hlusta á upplestur minn (Gripið fram í.) hvet ég viðkomandi til að lesa greinina. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í fjölda ára hefur verið að fjara undan heilsugæslu á Íslandi. Mönnunarskortur lækna er á landsvísu og leigulæknar fylla skarðið í öllum landshlutum. Loksins eru jákvæð teikn á lofti um uppbyggingu heilsugæslunnar. Eftir margra ára niðurskurð er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að fá nokkuð aukin fjárframlög á næsta ári. Ráðgert er að fjölga verulega sálfræðingum í heilsugæslunni á næstu árum. Verið er að þróa gæða- og greiðslukerfi að sænskri fyrirmynd, þar sem markmiðið er að fjármagnið fari þangað sem þörfin er mest til þess að styrkja opinbert velferðarkerfi. Þetta kerfi byggir á fjölmörgum þáttum og notaður verður ACG-greiningaflokkari frá Johns Hopkins háskólanum. Með þessu er verið að færa gæða- og fjármögnunarmódel heilsugæslunnar í að vera með þeim fremstu á heimsvísu. Skráningarmál verða bætt og gæðahvatar settir inn í kerfið. Í dag er staðan sú að verið er að greiða fyrir heilsugæslu á fjóra ólíka vegu á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að samræma þetta betur og koma á miðlægri skráningu skjólstæðinga.

Ráðgert er að opna nýjar heilsugæslur þar sem starfsmenn eiga og reka stöðvarnar, líkt og er í dag á Heilsugæslunni Lágmúla og Heilsugæslunni Salahverfi. Okkur vantar sárlega fleiri lækna inn í heilsugæsluna, bæði aftur heim og í sérnámið. Von er til að svo verði með þessum breytingum.

Undanfarið hafa birst greinar um einkavæðingu heilsugæslunnar og meðal annars vísað á Bandaríkin. Í sumum þessum greinum hefur borið á þekkingarleysi eða að greinahöfundar virðast vera að afvegaleiða umræðuna. Stundum er vísað í norrænar fyrirmyndir, en þar erum við eftirbátar. Við erum með kerfi þar sem aðrir sérfræðingar en heimilislæknar geta starfað sjálfstætt með samningi við Sjúkratryggingar. Þetta hefur meðal annars orsakað að hlutfallslega fáir fara í heimilislækningar miðað við sérstaklega Noreg og Danmörku. Þar hafa heimilislæknar starfað lengi sjálfstætt, en við erum í raun með öfugt kerfi miðað við þá.

Í Svíþjóð var gerð kerfisbreyting 2007–2009 til þess að styrkja kerfið. Þar var samkeppni aukin og aukið frelsi til þess að starfa sjálfstætt. Rúmlega 200 nýjar heilsugæslur voru opnaðar í Svíþjóð. Sjálfstætt starfandi heilsugæslur hafa staðið sig vel og styrkt kerfið. Þær hafa komið vel út í gæða- og þjónustukönnunum, sem hefur verið jákvæður hvati fyrir opinberar heilsugæslur. Sérnámslæknum í heimilislækningum í Gautaborg og nágrenni hefur fjölgað úr 176 í ársbyrjun 2009 í um 400 í dag. Ef við næðum þessum árangri mundi það þýða að við værum með 80 sérnámslækna, en þeir voru 37 samkvæmt síðustu upplýsingum. Sá fjöldi dugar vart til þess að fylla skarð þeirra sem fara á eftirlaun á næstu árum.

Hvað varðar árangur breytinganna í Svíþjóð þá hefur fjöldi stofnana þar gefið út skýrslur um árangurinn sem almennt er mjög jákvæður, en vissulega eru atriði sem má skoða og laga. Karolinska Universitet hefur reglulega birt skýrslur um árangur í Stokkhólmi. Þar jukust læknisheimsóknir í heilsugæslunni um 28% á árunum 2006–2009 og heildarkostnaður jókst um 2,8% á sama tíma. Árið 2006 voru það íbúar á svæðum með háar meðaltekjur sem voru með flestar heimsóknir, en 2009 voru það íbúar á svæðum með lágar meðaltekjur sem voru með flestar heimsóknir til heimilislækna. Í Gautaborg og nágrenni jukust læknisheimsóknir um nærri 15% í heilsugæslunni og kostnaðurinn þar hefur verið undir þessari aukningu líkt og í Stokkhólmi.

Við kerfisbreytingarnar í Svíþjóð fjölgaði heilsugæslum um 223 og eru nú 1.205 á landsvísu. Sænska ríkisendurskoðunin birti haustið 2014 skýrslu þar sem vissir þættir kerfisins voru gagnrýndir, en sú skýrsla hefur verið umdeild og verklagi við hana mótmælt harðlega af til dæmis VG region (Gautaborg og nágrenni). Þeir birtu 24 síðna skýrslu til þess að svara rangfærslum í skýrslunni.

Ljóst er að breytinga er þörf á heilsugæslu hér á landi til þess að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Skipulagsbreytingar og aukin fjármögnun spila þar stærstan þátt. Sjúkrahúsin sinna töluverðu af því sem heilsugæsla á að sinna í dag, en til þess að létta undir með þeim þarf að byggja heilsugæsluna upp. Þjóðhagslegur ávinningur þess er ótvíræður. Til þess að byggja heilsugæsluna upp eigum við að nýta fyrirmyndir frá öðrum norrænum ríkjum og er þessi kerfisbreyting skref í þá átt.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti. Ég tel að við ættum að hafa skynsemi til að ræða þessi mál út frá staðreyndum og ég hvet hv. þingmenn til að hætta að draga upp allt aðra mynd en er í gangi þegar einkarekin þjónusta er annars vegar, hvort sem er vísvitandi eða vegna misskilnings. Ég vek athygli á því að við erum með einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, í Salahverfi og Lágmúla. Þegar menn tala um að fólk hafi ekki aðgang að þeim stöðvum eru það eðli málsins samkvæmt helber ósannindi. Þær hafa komið vel út, bæði hvað varðar kostnað fyrir hið opinbera og í gæðakönnunum. Ég vek athygli á því að síðasta vinstri stjórn hefur væntanlega, miðað við þær skilgreiningar sem eru í gangi, farið í stærstu einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni samkvæmt skilgreiningum eigin hv. þingmanna. Hvenær gerði hún það? Þegar hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson náði þeim árangri, sem ég held að sé án nokkurs vafa það besta sem var gert í tíð síðustu hv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum, að semja við tannlækna sem eru einkaaðilar. Það er einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

Það væri fullkomin fásinna að nýta ekki kosti einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni en það þýðir ekki að menn eigi ekki að horfa til þess að styrkja og efla til dæmis Landspítalann. Það er lífsnauðsynlegt fyrir spítalann að við styrkjum heilsugæsluna og ekki síður þá þjónustu sem er nauðsynleg til að fólk geti farið af spítalanum en sé ekki þar eftir að það er í raun útskrifað. Það er gríðarstórt verkefni, ein af þessum stóru innviðauppbyggingum, að vera annars vegar með fjölbreytta þjónustu, endurhæfingu og annað slíkt þannig að fólk geti verið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er, og síðan þurfum við að byggja hjúkrunarrýmin af augljósum ástæðum. Þetta eru verkefni sem við verðum að fara í. Ég veit ekki til þess að nokkur stjórnmálaflokkur á Íslandi hviki frá því að allir hafi aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Ég vek athygli á því að kostnaðarhlutdeild á síðustu áratugum hefur aldrei verið lægri en þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með heilbrigðismálin.

Mér finnst að við ættum ekki bara að líta á það sem kemur að eftirlitsstofnununum og hvernig við getum einfaldað það kerfi, lækkað þann kostnað og gert sömu aðhaldskröfur til þeirra og annarra, heldur líka að hugsa okkur aðeins um þegar við förum í ný útgjöld. Ég vek athygli á að við ætlum að fara út í að setja á sjóð sem á að styrkja sérstaklega verkefni um verndarsvæði í byggð. Hann hefur ýmis einkenni ferðamannasjóðs og hætt við að það gæti orðið stór reikningur þegar upp er staðið. Við erum búin að setja gríðarlega fjármuni í þjóðgarða, m.a. þjóðgarðinn á Þingvöllum, og við hljótum að spyrja okkur hvort ekki sé eðlilegt að þeir sem njóta þjónustunnar þar greiði fyrir hana. Það getur ekki verið eðlilegt þegar við þurfum að forgangsraða að við setjum alla fjármunina beint úr opinberum sjóðum.

Svo eru lífeyrismálin sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á áðan og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór vel yfir í sinni framsöguræðu. Meðan við gerum ekki neitt stækkar sá reikningur. Við erum með lið sem er kominn upp í 3.600 milljónir á ári, jöfnun örorkubyrði almennra lífeyrissjóða. Meðan við jöfnum ekki kerfið, tökum af ríkisábyrgðina og höfum samræmd réttindi, mun þessi liður halda áfram að vaxa. Við þurfum ekkert að hvika frá því að allir hafi tryggingu fyrir örorkuslysum innan lífeyrissjóðanna og þá væri eðlilegt að hafa það bara innan kerfisins þannig að kerfið mundi jafna sig sjálft. Hins vegar er ekki forsvaranlegt að við höldum áfram að hækka þennan lið.

Atvinnuleysi hefur sem betur fer minnkað mjög mikið. Þess sér ekki merki þegar maður skoðar Atvinnuleysistryggingasjóð og Vinnumálastofnun. Maður sér þess ekki merki að stjórnunarkostnaður þar sé að lækka. Það getur ekki verið eðlilegt. Það er auðvitað markmið að lækka tryggingagjaldið. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á það áðan í andsvari að þetta er mjög vondur skattur, hann kemur sérstaklega illa niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er svo dýrt að ráða starfsmann. Ef maður vill hækka launin hjá viðkomandi starfsmanni þarf að hækka skattana sem maður greiðir til ríkisins. Einn liður í því hlýtur að vera að við skoðum þetta kerfi. Við hljótum að gera þá kröfu að þetta sé gert með eins skilvirkum hætti og mögulegt er. Maður getur ekki séð það þegar maður skoðar þessar tölur að lækkun stjórnunarkostnaðar komi fram miðað við minnkað atvinnuleysi.

Ég vek athygli á því að þegar maður fer yfir ríkisfjármálin eru þar alveg furðuleg útgjöld. Við erum búin að setja 165 milljónir frá 2007 í Félagsmálaskóla alþýðu. Af hverju erum við að því? Hverjum datt það í hug? Heldur því einhver fram að sérstaklega þurfi að styrkja hin öflugu samtök ASÍ til að halda úti skóla? Guð má vita hvað hann kennir. Örugglega eitthvað gott.

Við erum með stofnunina Íbúðalánasjóð þar sem extra kostnaðurinn er um 3 þús. milljónir á ári. Mig minnir það en hann gæti þó verið hærri. Fyrir hverja 1 kr. sem hann lánar út eru 6 kr. greiddar upp. Hvað þýðir það á íslensku? Það er ekki þörf á þessum sjóði. Þegar gengið er á fólk og það spurt hvaða markmiðum það vilji ná er svarið að það sé lánað til kaldra svæða á landinu. Einbeitum okkur þá að því. Við erum búin að setja milljarða á milljarða ofan. Heildarupphæðin frá 2007 er sambærileg eða orðin hærri en kostnaður við nýjan Landspítala. Núna erum við að setja 1.300 milljónir í Íbúðalánasjóð. Við höfum örugglega mismunandi hugmyndir um hvað við vildum gera við þessar 1.300 milljónir, en heldur því einhver fram að það sé góð forgangsröðun að setja þær í húsnæðisbanka? Ég held að á fjárlögum síðasta árs hafi 5.700 milljónir verið settar í hann. Við erum að togast á um 10–20 milljónir, 100, 500 milljónir. Nei, við getum það ekki, ekki í þessi þörfu verkefni af því að við ætlum að setja peninginn í Íbúðalánasjóð — aftur. Nú er búið að taka hann út og það er alveg augljóst að hægt er að ná þessum markmiðum með jafnvel engum fjárframlögum, í það minnsta miklu minni. Við getum náð markmiðunum um að lána til nýbygginga á köldu svæðin með alkvöð á þeim sem stunda húsnæðislán. Ef menn treysta því ekki gæti Byggðastofnun hugsanlega verið með einhvers konar ríkisábyrgð á þeim fáu húsum sem eru byggð á þessu svæði.

Mér finnst þessum fjármunum ekki vel varið.

Fjárlagaliðurinn Hælisleitendur hefur hækkað um 827% frá 2007, er kominn upp í 726 milljónir og fer örugglega hækkandi. Við komumst að því í fjárlagavinnunni að við erum því miður ekki að gera það sem aðrar þjóðir gera og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, sem er umhugsunarefni, að skilgreina þetta sem þróunaraðstoð. Þetta er það. Við erum að bæta við 465 milljónum til að halda okkur við 2,1% en ef við tökum framlögin til flóttamannanna hækkar það. Þá er ég ekki að tala um þróunarsjóð EFTA sem er hluti af því, en við erum með sérstaka þróunaraðstoð til Evrópusambandsins. Heittrúaðir ESB-sinnar telja þetta aðgangseyrinn að ESB en það er ekki svo. Þeir vita eins og er. Einhver sagði að við hefðum fengið með EES-samningnum allt fyrir ekki neitt og við sömdum um að greiða styrki í nokkur ár til Grikklands, Spánar, Ítalíu og Portúgals. Síðan fóru þeir fram á að við héldum áfram að greiða. (ÖS: Hver átti þessi fínu orð?) Jón Baldvin Hannibalsson átti þau fínu orð að við fengjum allt fyrir ekki neitt. Við höfum meðal annars styrkt þróunaraðstoð til Stóra-Bretlands í gegnum þróunarsjóð EFTA. Ég hef lagt áherslu á að ef við erum að borga í þennan sjóð eigi að nýta það fé í alvöruþróunaraðstoð, m.a. í flóttamannavandann sem er ekki að fara neitt frá okkur.

Það þarf að taka þetta út. Það er ótrúlegt og hlýtur að vera umhugsunarefni að það ráðuneyti sem á að halda utan um þessi mál geri það ekki betur ef svo ber undir. Það er ótrúlegt ef við erum á þeim stað að við gefum ekki upp alla þá þróunaraðstoð sem við veitum. Við borgum þá væntanlega 2,5% eða eitthvað slíkt ef maður hleypur á þessu miðað við þær litlu upplýsingar sem maður hefur um málið. Norðurlandaþjóðirnar eru að draga í þessa hefðbundnu þróunaraðstoð á móti þeim fjármunum sem þær setja í flóttamannaaðstoð. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef setja Danir krónu á móti krónu og Svíarnir að draga um 30% á móti hverri krónu sem þeir setja inn í þetta.

Við getum haft allar skoðanir á því hvað við eigum að setja mikið í þróunaraðstoð og flóttamennina en við hljótum að vera sammála um að þetta sé rétt gert þannig að við tölum um þetta út frá réttum staðreyndum, þ.e. hvað við setjum mikið í þróunaraðstoðina.

Þegar við tölum um opinberu fjármálin og fótum okkur þar eigum við bara að tala um rammana og ég verð að viðurkenna að mér finnst ramminn um utanríkismálin of stór. Þegar opinberu fjármálin eru gengin í gegn og við vitum ekki nákvæmlega hvernig þau þróast eins og maður skilur þau eigum við að tala meira um stóru myndina og hvað fer í hvaða málaflokk. Maður hlýtur að eiga að hafa skoðun á því hvað fer inn í hann. Ég skil ekki af hverju við erum að opna sendiskrifstofu í Strassborg. Ég bara skil ekki af hverju við setjum 40 milljónir í það. Þeirri skrifstofu var lokað og það gerðist ekkert. Það eru næg sendiráð í Evrópu. Enginn getur haldið því fram að við, þessi 320 þús. manna þjóð, séum ekki með nægilega mörg sendiráð í Evrópu. Ef menn vilja sinna Strassborg betur geta menn gert það með því að spara annars staðar. Við erum að tala um áherslur í utanríkismálum. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að leggja meiri áherslu á samskipti við Norður-Ameríku, væntanlega eina stórveldið í heiminum, Bandaríkin, og þar erum við með tvo diplómata. Þeir eru í Washington. Ef menn á annað borð vilja setja meira í þetta fyndist mér eðlilegra að forgangsraða með þeim hætti. Mér finnst utanríkisráðuneytið almennt vera of Evrópusinnað sem er sérstakt í ljósi þess að Evrópa skiptir alltaf minna og minna máli. Önnur svæði eru að stækka mjög mikið, bæði sem viðskiptalönd okkar, og ég tala nú ekki um viðskiptalönd og viðskiptablokkir í heiminum.

Í hagræðingaraðgerðunum var sömuleiðis gert ráð fyrir að við ættum að nýta kosti þess að við erum með viðskiptafulltrúa. Hér áður fyrr voru þeir fjármagnaðir af atvinnulífinu en þeim var líka stýrt af atvinnulífinu sem er eðlilegt vegna þess að þeir þjóna því. Við fórum því miður þá leið að setja þann kostnað á skattgreiðendur og við eigum að mínu áliti að stíga skrefið til baka. Það var mun skynsamlegra og þar væri leið til að nýta fjármunina betur. Við erum öll í sama liði, hvort sem er atvinnulífið eða þjóðin, þessi 320 þús. manna þjóð, og við eigum að nýta þetta eins vel og við mögulega getum.

Ég vil hrósa hæstv. ráðherra menntamála fyrir að vekja athygli á því hvað við stöndum okkur slælega þegar kemur að grunnskólum varðandi lestur, sérstaklega lestur ungra drengja, en ég er hugsi þegar ég sé að við setjum hundruð milljóna í Menntamálastofnun til að ríkið geti ráðið einstaklinga sem eiga að kenna kennurum á grunnskólastigi að kenna börnum að lesa. Það er augljóst þegar við skoðum samanburðartölur við aðrar þjóðir að við setjum ekki lítið í grunnskóla, sérstaklega ekki hlutfallslega. Þar erum við nokkuð vel fjármögnuð. Annars staðar mættum við hins vegar setja meira inn, sérstaklega í háskólana. Það er augljóst. Við skulum tala um málin eins og þau eru. Tilflutningur fatlaðra til sveitarfélaganna var til dæmis ekki nægilega vel undirbúinn. Það er bara sérmál hvernig það er hægt, að menn skyldu eftir fyrri tilfærslur ekki hafa undirbúið það betur. Það er búið og gert. Menn takast iðulega á um kostnað milli sveitarfélaganna og ríkisins. Ef menn vilja fara þessa leið, sem er meiningin, finnst mér að menn ættu að taka það inn í þennan reikning. Þarna er ríki að fara inn í málefnasvið sem er fjármagnað af sveitarfélögunum og á ábyrgð þeirra.

Ég sé mikla aukningu til safna í landinu. Mér finnst að við eigum aðeins að líta til þess hvort ekki sé hægt að nýta betur aukinn ferðamannastraum. Ég mundi ætla að það hjálpaði til við rekstur þessara safna að fá 1,3 milljónir ferðamanna. Í Vestmannaeyjum gengur glæsilega gossafnið mjög vel og við hljótum að líta til þess. Það er markmið hjá okkur að hafa glæsileg og góð höfuðsöfn en við hljótum líka að reyna að sjá til þess að þeir sem njóta þeirra borgi eðlilegan skerf. Það er markmið í sjálfu sér þegar við fáum þessa ferðamenn til landsins, sem er frábært og gefur okkur mikil tækifæri, að skattgreiðendur á landinu þurfi ekki að greiða meira til ákveðinnar þjónustu sem er til staðar núna og þeir nýta sér. Það hlýtur að vera markmið að þeir taki þátt í því og að sá reikningur falli ekki á skattgreiðendur.

Ég er líka hugsi þegar ég sé hina gríðarlegu aukningu til Hörpu og Sinfóníunnar. Óperan er í raun þar undir þó að hún sé sjálfseignarstofnun sem er meira og minna búin að klára allt sitt gjafafé. Af hverju er ekki hægt að nýta betur samlegðaráhrifin sem hljóta að vera hjá þessum glæsilegu stofnunum? Það er óeðlilegt að öll þessi starfsemi í Hörpu sé með þrefalda yfirstjórn. Við hljótum að gera þá kröfu að við nýtum tækifærin sem felast í þeirri samlegð. Þá kem ég aftur sömuleiðis að því að Reykjavíkurborg hefur vaxið og dafnað sem viðkomustaður og þetta glæsilega hús hefur svo sannarlega aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en það er hreinlega óskynsamlegt þegar menn geta ekki unnið betur saman en raun ber vitni og að við séum með þrefalda yfirstjórn.

Það er mér líka umhugsunarefni að við skulum ekki skilgreina betur stofnunina Landmælingar. Við setjum 303 milljónir á ári í þá stofnun. Það er augljóst að einkaaðilar eru farnir að sinna mikið því hlutverki sem stofnunin sinnti áður. Án nokkurs vafa gætum við sinnt betur þeim verkefnum sem við viljum sinna með þeirri stofnun ef við skilgreindum þau betur og hugsanlega byðum út.

Ég er fyrst og fremst að ræða þá hluti sem tengjast ekki grunnþjónustu. Það getur enginn haldið því fram að það sem ég hef nefnt hér sé árás á grunnþjónustuna, heilbrigðiskerfið, löggæsluna eða félagsmálin. Þar frá er langur vegur. Þetta er nokkuð sem fjölskylda þarf að gera, hún þarf að forgangsraða í fjármálum sínum, getur ekki sent reikninginn á nágrannana, hún þarf að halda utan um sín fjármál og ákveða hvað henni finnst mikilvægast. Fyrirtæki þurfa að gera þetta. Þeir sem finna mest fyrir þessu eru litlu einyrkjarnir með stóru fyrirtækin. Okkur ber skylda til að hugsa þetta með þessum hætti og mér finnst það vanta inn í umræðuna.

Ég skal viðurkenna að bæði umræðan hér og umræðan almennt sem og í hv. fjárlaganefnd þegar að þessum málum kemur hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum. Meiri hlutinn höfum náð árangri þegar kemur að vissum útboðsmálum. Það er að vísu alveg ótrúlegt að utanríkisráðuneytið skuli ekki bjóða út. Við fórum nýja leið sem hefur ekki verið farin áður af því að við höfðum kallað Ríkiskaup til hvað eftir annað, ráðuneytin o.s.frv. Við sendum spurningalista í vor á öll ráðuneytin og vildum fá að vita hversu margar stofnanir byðu út. Menn eiga að gera það samkvæmt lögum eða nýta sér rammasamninga sem eru augljós kostur. Það hafa verið endalausar skýrslur um skynsemi þess. Stundum er erfitt að spara en hvað er erfitt við það að bjóða út símaþjónustu eða rafmagnsþjónustu? Hafið þið einhvern tímann komið í einhverja stofnun sem segir bara: Þetta er alveg ómögulegt eftir að við skiptum um aðila sem selur okkur rafmagn? Þetta rafmagn sem við fáum er alveg ómögulegt? Það er auðvitað ekki þannig. Hins vegar eru til stofnanir sem hafa sparað verulega fjármuni með því að bjóða slíkt út. Ég nefni Veðurstofuna sem dæmi. Sem betur fer eru dæmi um stofnanir sem hafa náð góðum árangri með útboðum. Þau eru bara allt of fá. Ég tók með mér nokkuð mikið af gögnum en ég gleymdi að taka með mér þessar tölur. Þær liggja hins vegar fyrir og ég hef farið yfir þær á opinberum vettvangi.

Það veldur mér líka vonbrigðum að af þeim 110 hagræðingaraðgerðum sem hagræðingarhópurinn kom með hafa 24 verið framkvæmdar og sjö eru í þinglegri meðferð. Mér finnst að við ættum að gera betur. Við tökumst á um margt og getum rifist um hvort skattar eigi að vera háir eða lágir og hvort einhverjir vilja ganga í Evrópusambandið og eitthvað, en af hverju náum við ekki saman um að reyna að nýta fjármunina eins vel og hægt er? Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir hv. stjórnarandstöðu að ég hef aldrei séð hana sjá ríkisútgjöld án þess að vilja auka þau. (Gripið fram í: Hvað þá á síðasta kjörtímabili?) Vonandi verður þetta til þess að eitthvað breytist hvað það varðar en vilji hennar til að auka ríkisútgjöld er alveg gríðarlega sterkur. Af þessari upptalningu mætti ætla að eitthvað segði manni: Já, ég held að hugsanlega væri í lagi að lækka þetta eða láta standa í stað og hætta að hækka. En þau viðbrögð kæmu mér verulega á óvart. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Vonandi.

Auðvitað er stóra myndin góð. Menn halda áætlun og greiða niður skuldir. Ríkisstjórnin er að forgangsraða í þágu heilbrigðismála, til lífeyristrygginga og í löggæsluna en við skuldum mikið í fjárfestingum. Við erum ekki að snúa af þeirri braut og náum ekki að fjárfesta eins og við þurfum í innviðum, m.a. samgöngum, hvort sem eru vegir, hafnir eða flugvellir, eða hjúkrunarheimilum og þess háttar. Við verðum að spara einhvers staðar ef við viljum í alvöru gera þetta og þá þurfum við að taka þá umræðu.

Ég ætla að lokum, virðulegi forseti, að nefna aðeins 6. gr. heimildir sem eru hér inni. Ég heyri svolítið í umræðunni þegar kemur að 6. gr. heimildum að það verði að selja eitthvað. Því miður hefur hv. fjárlaganefnd ekki þau völd. Ríkisstjórnin hefur heimild til að selja vegna þess að hún þarf að hafa heimild. Margar heimildir hafa verið inni í mörg ár, kannski áratugi. Ég er þingmaður Reykvíkinga, viðurkenni að ég er stoltur af því, og held að borgin yrði betri ef við nýttum til dæmis Tollhúsið í annað en við nýtum það í í dag. Fjöldi ferðamanna fer með rútum í Holtagarða, Kringlu og Smáralind. Ég er ekkert að tala það niður en ég held að það væri miklu betra fyrir okkur öll og borgin yrði betri ef í Tollhúsinu væri til dæmis lítil verslunarkeðja eða jafn stór og mögulegt er. Auðvitað þarf tíma til að fara yfir það. Hið sama á við um Þjóðskjalasafnið sem er mjög merkileg stofnun. Menn pakka því ekki niður á nokkrum mínútum og senda eitthvað. Það svæði er hins vegar orðið miðborgarsvæði út af ferðamönnunum. Ef menn fara á erlenda miðla, TripAdvisor eða hvað þetta heitir, og kanna þá er litið á Rauðarárstíginn sem miðborg Reykjavíkur. Það þýðir að verðmæti þessa svæðis hefur aukist mikið og við ættum að nýta það. Það er líka heimilt að selja lögreglustöðina. Ef við skipuleggjum það svæði vel gerum við borgina enn þá betri en hún er í dag. Ég held að allir hagnist á því. Að sjálfsögðu þurfum við að sjá til þess að Þjóðskjalasafnið fái virðulegan sess og að fólk hafi aðgang að þjónustunni þar. Í því eru margir möguleikar, þetta eru aðallega tækifæri.

Ég vona að þær greinar verði samþykktar og að við sjáum einhverja hreyfingu á þeim hlutum.